Það getur kostað sitt að fara í Batman leik. Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter seldist fyrsti Batman bíllinn sem búinn var til fyrir upprunalegu Batman sjónvarpsþættina á sjöunda áratug síðustu aldar, fyrir 4,6 milljónir Bandaríkjadala á uppboði um helgina, eða tæpar 600 milljónir íslenskra króna.
Kaupandinn heitir Rick Champagne, kaupsýslumaður og bílasafnari frá Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum.
Bíllinn er smíðaður af hinum goðsagnakennda Hollywood bílasmið, George Barris, en hann smíðaði bílinn á einungis 15 dögum árið 1966.
Batman bíllinn er nú jafndýr og James Bond bíllinn Aston Martin DB5 sem Sean Connery ók á í Goldfinger, en þessir tveir bílar eru nú dýrustu bílar kvikmyndasögunnar.