Eftir að hafa um margra ára skeið bjargað heiminum á eigin vegum, þá munu Batman og Superman leiða saman hesta sína í Man of Steel 2. Henry Cavill leikur á ný Superman og Zack Snyder leikstýrir. Handritshöfundurinn David S. Goyer hefur einnig skrifað undir hjá Warner Bros, sem framleiðir myndina. Ekki hefur verið staðfest hver mun fara með hlutverk Batman.
Margar getgátur hafa verið á kreiki eftir að leikarinn Christian Bale sagði skilið við Batman og velta margir fyrir sér hver taki við af honum í Man of Steel 2. Bale hefur unnið hugi og hjörtu aðdáenda og horfa margir á hann sem hinn eina sanna Batman.
Batman og Superman eiga langa sögu í myndasöguheiminum og komu fyrst fram sem tvíeyki í myndasögunni Worlds Finest árið 1954. Þar voru þeir bestu félagar og unnu saman gegn glæpum. Árið 1986 leystist vinskapur þeirra upp þegar Frank Miller gaf út myndasöguna The Dark Knight, í þeirri sögu var bæði mikill pólítískur og heimspekilegur ágreiningur á milli þessara ofurhetja.
Man of Steel hefur gert það gott á heimsvísu og þénað 600 milljónir dala síðan hún var frumsýnd í júní. Framhaldsmyndin verður frumsýnd árið 2015.