Beetlejuice enn í stuði á toppnum

Fríkaða framhaldsmyndin úr smiðju leikstjórans Tim Burton, Beetlejuice Beetlejuice, heldur áfram að mala gull í aðsókn víða, en myndin hefur farið létt með að halda toppsætinu vestanhafs jafnt og á Íslandi. Alls hafa núna tæplega sjö þúsund manns séð myndina í kvikmyndahúsum á Íslandi.

Ljósvíkingar halda enn ágætisdampi í öðru sætinu, með tæplega fimm þúsund gesti í heildina frá frumsýningu. Má þess geta að kvikmyndin er búin að slá ýmis aðsóknarmet á Ísafirði, en saga myndarinnar gerist á þeim hluta landsins.

Spennutryllirinn Speak No Evil er eina nýja frumsýning helgarinnar og trónir sú ræma í þriðja sætinu og virðist hafa fengið prýðisviðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.

Listann yfir kvikmyndaaðsókn helgarinnar má sjá hér að neðan.