Senn líður að frumsýningardegi Hobbitans hér á landi, en Bilbó Baggi knýr dyra hjá íslenskum bíógestum ögn síðar en í flestum öðrum löndum til að passa inn í jólamyndaslottið á annan í jólum. Myndin hefur þegar vakið nokkuð góð viðbrögð úti í heimi, þótt misjafnar séu skoðanir manna á aðferðum leikstjórans Peters Jackson við að laga fremur einfalt og barnslegt ævintýri Tolkiens að öllum tilheyrandi hasar stórmyndaformsins. Hobbitinn mun verða heill þríleikur og Jackson er því mikið að bæta við upprunalegu bókina til að teygja lopann og færa myndirnar nær stemningunni í hinum vel heppnaða Hringadróttins-þríleik sem gladdi bíógesti um jólin fyrir um það bil áratug síðan. Hvort Jackson tekst að endurtaka leikinn með nýjustu afurðinni verður hver að meta fyrir sig á næstu dögum og vikum, en áður en haldið er í jólabíó eru nokkur atriði sem vert er að minnast á og hafa í huga varðandi ferðalagið mikla frá bók yfir á tjald.
Jackson ætlaði að byrja á Hobbitanum
Hobbita-þríleikurinn er ekki forleikur í sama skilningi og Star Wars-forleikur Lucasar, þar sem allt var skrifað löngu á eftir fyrstu myndunum. Upphaflega ætlaði Jackson að byrja á Hobbitanum og reyndi að komast yfir réttinn á bókinni áður en hugmyndin að því að kvikmynda Hringadróttinn kom til sögunnar, en því fylgdu langar og erfiðar samningaviðræður sem urðu loks að engu. Upp úr þeim leiðindum kom þó í ljós að rétturinn að Hringadróttni væri á lausu og þar með hófst vinnan við þríleikinn fræga. Nú þegar Jackson og félagar hafa snúið aftur til Miðgarðs og eru loks að kvikmynda Hobbitann virðast þau hafa tekið þá ákvörðun að færa verkið nær Hringadróttni, bæði hvað varðar stíl og efni, þótt bækurnar séu afar ólíkar. Enn fremur hafa þau ákveðið að stækka söguna með því að troða inn alls kyns aukaefni úr öðrum skrifum Tolkiens. Sú ákvörðun hefur hlotið þó nokkra gagnrýni, enda er þetta leið sem kvikmyndagerðarmennirnir hefðu ólíklega farið ef Hobbitinn hefði orðið til á undan.
Viðaukaefni Tolkiens tvinnað inn í Hobbitann
Hins vegar má ekki gleyma að Tolkien stóð frammi fyrir svipaðri ákvörðun varðandi Hobbitann eftir að stóra systkinið, Hringadróttinssaga, hafði litið dagsins ljós. Hobbitinn var ekki skrifuð með það í huga að vera hluti af stærri sögu og því voru einfaldlega margir hlutir sem urðu flóknari þegar frumburðurinn var lesinn í samhengi við epíkina sem á eftir kom. Sagan stendur auðvitað fyllilega fyrir sínu sem einfalt ævintýri, en um leið og hún er færð inn í röklegt samhengi við Hringadróttinn eru mörg atriði sem þarf að ávarpa. Það gerði Tolkien í gegnum aðrar sögur og viðauka, sérstaklega söguna af „Leitinni að Erebor“ (sem kom út í Ófullgerðum sögum eftir dauða höfundarins) þar sem hann skrifar söguþráð Hobbitans út frá sjónarhóli Gandalfs og útskýrir ýmislegt varðandi efnið sem kom ekki fram í upprunalegu sögunni. Slíkir viðaukar voru skrifaðir til að staðsetja Hobbitann strategískt innan heimsmyndar og sagnfræði Miðgarðs, sem var enn á frumstigi þegar bókin var upprunalega skrifuð á fjórða áratugnum. Það er einmitt þetta viðaukaefni sem Jackson er að tvinna inn í sinn Hobbita til að gera söguna að meiri stórmynd og reyna að koma henni upp á svipaðan stall og Hringadróttinn.
Þetta er áhugaverð tilraun og eflaust margt spennandi í þeim efnum, en því er ágætt að rifja upp að Tolkien reyndi þetta sjálfur á sínum tíma en hætti við. Snemma á sjönda áratugnum byrjaði Tolkien að endurskrifa Hobbitann og laga þráðinn betur að öllu sem kom fram í Hringadróttinssögu. Hann umbreytti tóni textans og gerði mun alvarlegri, á kostnað glettninnar og gáskans sem annars einkennir bókina, auk þess sem hann tók að færa inn viðbótarupplýsingar til að útskýra og réttlæta ýmislegt í þræði verksins. Hins vegar entist Tolkien ekki lengra en fyrstu þrjá kaflana áður en hann gafst upp eftir að hafa leyft vini að lesa prufurnar. „Þetta er dásamlegt, en þetta er ekki Hobbitinn,” var víst dómurinn og Tolkien áttaði sig á að það væri marklaust að blanda saman tveimur stílum og leyfði því hinum upprunalega Hobbita að vera í friði.
Silmerillinn væri efni í nokkra aðra þríleiki
Í ljósi þessa tilrauna höfundarins til að uppfæra og endurbæta eigið verk má færa rök fyrir því að Peter Jackson sé í raun að halda áfram með þráðinn sem Tolkien skildi eftir sig. Sjálfur virðist höfundurinn ekki hafa séð fram á að hægt væri að blanda þessu tvennu saman og því verður forvitnilegt að sjá hvernig Jackson tekst til. Enn fremur má skoða tilraunamennsku leikstjórans út frá einhvers konar ótta um að yfirgefa Miðgarð, en líklega verður þetta í síðasta sinn sem Jackson gerir kvikmynd út frá verkum Tolkiens. Þar af leiðandi gæti það verið honum kappsmál að segja fleiri sögur en bara þær sem er að finna á blaðsíðum Hobbitans. Langvarandi fýla Tolkien-fjölskyldunnar út í kvikmyndagerðarmennina bendir til þess að Jackson og félagar fái ekki aðgang að öðrum verkum höfundarins, s.s. goðafræðisafninu Silmerillinum, sem væri efni í nokkra aðra þríleiki ef út í það er farið, og því er ólíklegt að við fáum fleiri Tolkien-kvikmyndir í bráð. Sjálfur hefði ég gjarnan viljað sjá annan leikstjóra tækla efnið og sérstaklega var ég spenntur að heyra þær fréttir að Guillermo del Toro hafi ætlað að gera Hobbitann. Þau plön urðu þó að engu, þótt hann sé titlaður sem einn handritshöfunda myndar Jacksons, en ég mun líklega aldrei geta hrist burtu tilhugsunina um hvernig Hobbitinn hefði litið út í höndum del Toros – sérstaklega þar sem hann ku hafa ætlað að styðjast fyrst og fremst við brúðuleik, í stað tölvubrellna.
Jackson stefnir á ótroðnar slóðir
Viðbætur Jacksons sem eru kroppaðar úr viðaukum Tolkiens valda mér engu hugarangri hvað varðar komandi þríleik, en það sem verra gæti talist er ef að Jackson fer að bæta við of miklu frá sjálfum sér, líkt og hann gerði á köflum með Hringadróttinn. Söguþráður jólamyndarinnar í ár bendir sterklega til þess að þó nokkuð sé um senur sem tengjast Tolkien ekki neitt og virðast fyrst og fremst vera til staðar sem uppfyllingarefni. Að myndinni óséðri, þegar þetta er ritað, eru það slíkar senur sem ég óttast helst að geti teygt lopann um of, miðað við þá gagnrýni sem hefur heyrst um að fyrsta myndin dragist töluvert á langinn og haldist fremur illa uppi sem heild, þrátt fyrir marga góða spretti. Peter Jackson stefnir á ótroðnar slóðir og ég bíð spenntur – þó með ákveðnum fyrirvara og dálítilli skvettu af kvíða – að upplifa afraksturinn. En það er eitthvað sem verður að koma í ljós á frumsýningardegi.