Bítill í Pirates Of The Caribbean mynd

paul mccartneyBítillinn Sir Paul McCartney hefur verið ráðinn í hlutverk í næstu Pirates of the Caribbean mynd; Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales. Ekki er gefið upp hvert hlutverk hans verður.

Tökum á myndinni er lokið, en McCartney mun koma fram í viðbótaratriði sem leikstjórarnir Joachim Ronning og Espen Sandberg og framleiðandinn Jerry Bruckheimer ætla að bæta við.

Tónlistarmaðurinn er aðalpersónan í því atriði, samkvæmt orðum talsmanns Disney, á vef Variety kvikmyndablaðsins.

Dead Man Tell No Tales er fimmta Pirates Of The Caribbean myndin. Með aðalhlutverk, hlutverk skipstjórans Jack Sparrow, fer Johnny Depp, en aðrir leikarar eru m.a. Geoffrey Rush sem Barbossa og Javier Bardem sem Salazar skipstjóri. Brenton Thwaites og Kaya Scodelario eru ný viðbót í seríuna og leika nýjar persónur en Orlando Bloom snýr aftur sem Will Turner.

Myndin kemur í bíó 26. maí 2017.

McCartney fetar hér í fótspor kollega síns Keith Richard úr bresku rokkhljómsveitinni Rolling Stones, sem lék árið 2011 í Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides, í hlutverki föður Jack Sparrow; Teague skipstjóra.