Bond leikstjóri skoðar vampírubana

Heimurinn er greinilega sjúkur í vampírur, uppvakninga og aðrar myrkraverur, miðað við framboðið á myndum um þessar verur. Þess ber þó reyndar að geta að þessum myndum fjölgar stórlega í kringum nýafstaðna Halloween hátíð.

Við sögðum í morgun frá væntanlegum uppvakningatrylli með Brad Pitt, World War ZHótel Transylvania með Drakúla og vinum hans er í bíó, sem og uppvakningshundurinn Frankenweenie, og Twilight er handan við hornið. Ekki má gleyma þeim Clueless vinkonum í blóðsuguham í myndinni Vamps sem við sögðum frá í gær, og í sjónvarpinu er heill sjónvarpsþáttur helgaður ófrýnilegum uppvakningum, The Walking Dead. 

Nú ætlar sjálfur Sam Mendes, leikstjóri James Bond myndarinnar Skyfall að slást í þennan hóp, og gera sjónvarpsþætti um vampírubana, en með Mendes í liði er félagi hans John Logan  sem skrifaði handritið að Skyfall.

Það er Deadline.com sem greinir frá þessu.

Van Helsing og Frankenstein

Sagan sem þeir vinna með er ný af nálinni, en inn í hana fléttast alþekktir vampírubanar eins og Van Helsing, sem og skrýmsla“smiðir“ eins og Doctor Frankenstein, en þeir myndu vinna saman í þáttunum að því koma blóðsugunum fyrir kattarnef.

Þættirnir eiga að gerast í kringum árið 1880 í London. 

Félagarnir eru nú að kynna verkefnið fyrir hugsanlegum samstarfsaðilum, þannig að nú er bara að bíða og sjá hvort þetta verður ekki að veruleika, eða er komið nóg af vampírum …