Þráinn dæmir RIFF appið

RIFF og Síminn gáfu út App fyrir iPhone og Android í dag. Appið er skyldueign fyrir snjallsímaeigendur sem ætla sér mikinn á Reykjavík International Film Festival. Undirritaður náði í appið í dag og fór ítarlega í gegnum það með Samsung Galaxy SII símanum sínum, sem keyrir á Android stýrikerfinu (ég átti iPhone 4 en hann dó um daginn, drasl). Lítum aðeins á hvað appið hefur að bera.

1.Forsíða


Appið tekur á móti manni með mjög notendavænu viðmóti þar sem allt það sem þú þarft að vita er beint fyrir framan þig. Hér er hægt að nálgast allar myndir á hátíðinni, viðburðayfirlit, dagskrá, upplýsingar um bíóhús og RIFF ásamt því að þú getur búið til þína eigin dagskrá. Einnig er flennistórt plakat af mynd dagsins á forsíðunni ásamt því að hægt er að velja um enska eða íslenska útgáfu. Mjög töff.

2.Myndir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er hægt að nálgast yfirlit yfir myndir sem sýndar eru á RIFF ásamt upplýsingum um hverja mynd fyrir sig, lengd, söguþráð, plakat, sýningartíma o.fl. Óaðfinnanlegt.

3.Viðburðir

Flipinn viðburðir gefur yfirlit yfir þá sérviðburði sem eru á hátíðinni, t.d. sundbíó eða heimabíó hjá Hrafni Gunnlaugs. Keimlíkt yfirlitinu fyrir myndirnar en hefur greinilega verið sett saman í flýti þar sem fáar stillur fyrir viðburðina eru til staðar, sem eyðileggur svolítið upplifunina.

4.Dagskrá

Hér er hægt að nálgast dagskrá eftir dögum og sýningartíma mynda. Afar þægilegt yfirlit yfir dagskrána og í raun auðveldara að fletta í gegnum hana hér en í bæklingnum.

5.Mín dagskrá

Hér kemur sterkasta hlið appsins að mínu mati. Mjög auðvelt er að merkja við þær myndir sem maður hefur áhuga á og þær færast sjálfkrafa inn í flipann Mín Dagskrá. Þar býr appið til þína eigin dagskrá sem gerir RIFF upplifunina gríðarlega þægilega. Hægt er að raða myndunum eftir sýningartímum eða í stafrófsröð. Snilld!

 6.Bíóhús

Þessi liður er eflaust ætlaður fyrir útlendingana en hann er einnig valmöguleiki í íslensku útgáfunni. Hér er kort með staðsetningu allra sýningarstaða á RIFF, hvort sem um er að ræða kvikmyndahús eða annan vettvang. Fegurðinni hefur verið fórnað til að gera pinnana sýnilegri þar sem þeir eru svartir á litinn og skera sig töluvert úr. Þegar smellt er á sýningarstað kemur fram hvað er til sýnis þar á hátíðinni.

7.Samantekt og niðurstaða

Hér er á ferðinni löngu tímabært app fyrir RIFF hátíðina sem gerir snjallsímaeigendum lífið auðveldara. Margir RIFF’arar kannast eflaust við að dagskráin teygir anga sína víða sem gerir kvikmyndaáhugafólki mjög erfitt að öðlast yfirsýn yfir þær myndir sem eru á hátíðinni. Margir vilja meira að segja meina að þetta sé helsti galli hátíðarinnar. Ég geng ekki svo langt að segja að þetta app lagi það vandamál, en það hjálpar vafalaust til.

Síminn hannaði einnig app fyrir Airwaves hátíðina sem var svipað í sniðum og fengu þeir fjölmörg verðlaun fyrir það app (ég auglýsi hér með eftir íslensku orði yfir ,,app“, þetta er fáránlega ljótt). Ég notaði það forrit mikið og ber því söguna vel. Þó svo að RIFF appið sé byggt á svipuðum grunni og það app er hér fleiri galla að finna.

Ég lenti ítrekað í því að þurfa að tvísmella á flipa í appinu ásamt því að það hrundi oft við mismunandi prófanir (sem ég ætla ekki að fara út í hér).  Ljóst er að einhver hefur verið að flýta sér í vinnslu á appinu þar sem það vantar til dæmis fjölmörg plaköt og ýmsar myndir eru sagðar ekki vera sýndar ,,oftar“ á hátíðinni (er RIFF ekki sett í dag eða ?). Hægt er að tengja appið við Facebook en innskráningin vistast ekki, því þarf að skrá sig inn í hvert sinn sem appið er opnað. Þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum og ég ætla ekki að drepa ykkur úr leiðindum með fleiri göllum.

RIFF 2012 er stórgott app sem gerir snjallsímaeigendum lífið auðveldara. Það er hins vegar langt frá því að vera gallalaust og skítalausnir á ýmsum sviðum eyðileggja upplifunina töluvert. Hins vegar er hér á ferð stórgóður grunnur og með nauðsynlegum endurbótum verðum við með verðlaunaapp í höndunum á komandi hátíðum. Einkunn: 7,5.

Stikk: