Kvikmyndin Þrestir eftir Rúnar Rúnarsson hefur verið tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, en hún er meðal fimm tilnefndra mynda frá öllum Norðurlöndunum.
Verðlaunin verða afhent 1. nóvember í Kaupmannahöfn.
Í fyrra bar myndin Fúsi eftir Dag Kára sigur úr býtum en þess má geta að sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða rúmar 6 milljónir íslenskra króna.
Verðlaunamyndin þarf að vera runnin undan rifjum Norrænnar menningar og af miklum listrænum gæðum. Hún á einnig að vera framúrskarandi hvað varðar listrænan frumleika og flétta saman á fágðan máta undirstöðuatriðum kvikmyndalistarinnar svo úr verði sannfærandi heild.
Myndirnar sem tilnefndar eru eru eftirfarandi:
Ísland
Þrestir // Sparrows
Leikstjórn & handrit: Rúnar Rúnarsson
Framleiðsla: Mikkel Jersin
Danmörk
Under sandet // Land of Mine
Leikstjórn & handrit: Martin Zandvliet
Framleiðsla: Mikael Rieks
Finnland
Hymyilevä mies // The Happiest Day in the Life of Olli Mäki
Leikstjórn: Juho Kuosmanen
Handrit: Mikko Myllylahti og Juho Kuosmanen
Framleiðsla: Jussi Rantamäki
Noregur
Louder Than Bombs
Leikstjórn: Joachim Trier
Handrit: Eskil Vogt og Joachim Trier
Framleiðsla: Thomas Robsahm
Svíþjóð
Efterskalv // Framhaldslíf
Leikstjórn & handrit: Magnus von Horn
Framleiðsla: Madeleine Ekman
(ATH: Finnska myndin fer í almennar sýningar í Bíó Paradís í vetur og er ráðgert að frumsýning fari fram í desember.)
Í íslensku dómnefndinni sátu Hilmar Oddsson, Börkur Gunnarsson og Helga Þórey Jónsdóttir. Þau segja m.a. í umsögn sinni um Þresti:
„Þrestir er þroskasaga unglingsdrengsins Ara, en tilvera hans umbyltist þegar móðir hans ákveður að flytja til útlanda með eiginmanni sínum. Ari á ekki annarra kosta völ en að yfirgefa Reykjavík og flytja á æskuslóðirnar á Vestfjörðum, til áfengissjúks föður sem hann hefur ekki hitt í mörg ár. Í myndinni má finna ýmis stef sem jafnan einkenna þroskasögur, einkum hvað snertir samband föður og sonar frá sjónarhorni hins afskipta barns.“
Allar fimm myndirnar verða sýndar á Norrænni kvikmyndaveislu í Háskólabíói 14. – 18. september.