Guðleysi fékk Gullna lundann

Myndin Guðleysi eftir Ralitza Petrova hreppti í gær Gullna lundann, aðalverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF. Verðlaunin voru afhent á lokahófi RIFF sem fram fór í Hvalasafninu í gærkvöldi.

mike

Mike Day tekur við verðlaunum fyrir mynd sína Eyjarnar og hvalirnir

Myndin var hluti af keppnisflokknum Vitranir / New Visions þar sem ellefu myndir kepptu um verðlaunin. Flokkinn skipuðu ellefu myndir sem eiga það sameiginlegt að vera fyrsta eða annað verk leikstjóra og ögra viðteknum gildum í kvikmyndagerð og vísa veg kvikmyndalistarinnar til framtíðar.

Að auki hlaut myndin Risinn eftir Johannes Nyholm úr flokknum Vitranir / New Visions sérstaka viðurkenningu dómnefndar.

Myndin Eyjarnar og hvalirnir / The Islands and the Whales eftir Mike Day sigraði flokkinn Önnur Framtíð / A Different Tomorrow. Í þeim flokki mátti finna tólf áhrifamiklar heimildamyndir sem eiga það sameiginlegt að fjalla um mannréttinda- og umhverfismál.

Myndin Ungar / Cubs eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin.

nanna-kristin

Nanna Kristín Magnúsdóttir með verðlaun sín fyrir bestu stuttmyndina.

Í ár voru í fyrsta sinn veitt verðlaun í flokki erlendra stuttmynda og var það myndin Heima / Home eftir Daniel Mulloy sem hlaut þau.

Heimildarmyndin Herra Gaga / Mr. Gaga eftir Tomer Heyman hlaut áhorfendaverðlaun RIFF.

Loks hlaut myndin Hertoginn / The Duke eftir Max Barbakow Gullna eggið, viðurkenningarverðlaun fyrir unga leikstjóra.