Framlag íslands til óskars – ný stikla

Ný stikla fyrir myndina Eldfjall er kominn inn á kvikmyndir.is. Þetta er fyrsta mynd Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd, með Theódóri Júlíussyni og Margréti Helgu Jóhannsdóttur í aðalhlutverkum. Myndin er þroskasaga manns sem er nýlega kominn á eftirlaun, veikist og þarf að takast á við fortíðina.

Þetta er fyrsta mynd Rúnars í fullri lengd, en áður hafði hann gert stuttmyndirnar Anna, Smáfuglar, og Síðasti Bærinn í Dalnum, en sú síðastnefnda var tilnefnd til óskarsverðlaunanna 2005. Eldfjall var frumsýnd í Cannes í vor við góðar undirtektir, og hefur síðan m.a. farið á Karlovy Vary kvikmyndahátíðina í Tékklandi, og á Toronto International Film Festival. Myndin fer í almennar sýningar hér 30. september, en verður fyrst sýnd nokkrum sinnum á RIFF, og er fyrsta íslenska myndin sem keppir í flokknum Nýjar Vitranir. Hátíðin fer einmitt í gang í dag.

Þá var tilkynnt fyrir stuttu að meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hefðu valið Eldfjall sem framlag Íslands til óskarsverðlaunanna 2011. Við óskum aðstandendum myndarinnar til hamingju með það.
Nýju stikluna má finna hér