Þrívíddin ýtir tvívíddinni út

James Cameron leikstýrir Sam Worthington í Avatar þrívíddarmyndinni.

James Cameron leikstjóri Avatar og fleiri stórmynda, segir að þrívíddin muni algjörlega taka við af tvívíddinni sem staðall í bíómyndum, sjónvarpi og í efni á netinu innan 25 ára.

Áhorfendur munu innan skamms ekki þurfa að fara í bíó til að upplifa þrívíddina, því hún mun koma líka í alls konar afþreyingu,hvort sem það eru íþróttaviðburðir eða tónlistarþættir, í sjónvarpi eða í tölvunni. Þetta sagði Cameron á tækniráðstefnu í Seoul á fimmtudaginn sl.

James Cameron leikstýrði einmitt þrívíddarmyndinni Avatar, sem vann þrjú Óskarsverðlaun og er tekjuhæsta mynd sögunnar, með 2,7 milljarða Bandaríkjadali í aðgangseyri. Cameron leikstýrði einnig stórmyndunum Titanic og Terminator.

Cameron sagði á ráðstefnunni að Avatar hefði sannað að þrívíddartæknin er ekki tískubóla, heldur bylting sem breytir því hvernig áhorfendur velja að njóta ýmiss afþreyingarefnis.

„Þar sem áhorfendur hafa getað valið,hafa þeir einfaldlega valið þrívíddina fram yfir tvívíddina,“ sagði Cameron.

Leikstjórinn bætti við að hann teldi að þrívíddin væri álíka bylting og þegar hljóð og litur komu inn í bíómyndir. Hann telur að það muni taka þrívíddina minna en 25 ár að verða staðall í gerð bíómynda, en það tók litinn 25 ár að verða staðall í bíómyndum á sínum tíma.

Samsung sjónvarpsframleiðandinn og Panasonic hófu að selja þrívíddarsjónvörp fyrr á þessu ári.

Kvikmyndaverin Universal og Disney hafa gefið út myndir í þrívídd á Blue-ray, svo sem „Coraline“ og „The Polar Express“.

Discovery og ESPN hafa tilkynnt að stöðvarnar hyggist setja á stofn sérstaka kapalsjónvarpsstöð sem sendir út í þrívídd, en fyrsta útsending hennar verður á leikjum frá HM í knattspyrnu í næsta mánuði.

Það sem einna helst heldur aftur af útbreiðslu þrívíddarinnar er ekki tæknin, heldur skortur á efni til að horfa á í þrívídd, sagði Cameron á ráðstefnunni.

„Ef þú vilt horfa á allar þrívíddarmyndir sem til eru í nýja þrívíddarsjónvarpinu þínu ,þá munu þær endast þér í þrjá daga,“ sagði hann. „Þessi skortur á efni stendur útbreiðslunni fyrir þrifum.“


Bjartsýnn á þrívíddina á Netinu

Þegar Cameron var á ráðstefnunni spurður um hver þróunin væri í að skoða þrívíddarefni á netinu , sagðist Cameron bjartsýnn. „Þrívíddartölvur eru nú þegar á markaðnum,“ sagði Cameron. „Ég hef þegar séð nokkrar góðar.“

Tilkynnt um frumsýningardag Avatar 2

Cameron ætlar sjálfur að gera allt sem hann getur í að hjálpa til við að auka efnisframboð, en sjálfur ætlar hann að gera framhald af Avatar, sem talið er að muni taka þrjú ár að gera, sem er 18 mánuðum skemmri tími en það tók að gera fyrstu myndina. Frumsýningardagur Avatar 2 mun verða tilkynntur innan fárra mánaða.