Brúðguminn er framlag Íslands til Óskarsins

Kosningu meðlima Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar um framlag Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna lauk í gærkvöldi. Brúðguminn eftir Baltasar Kormák varð fyrir valinu.

Brúðguminn
er mynd á léttu nótunum um lífsgleðina og leitina að
hamingjunni með ljúfsárum undirtón þó, enda ekkert ljós án skugga, en
myndin fjallar um háskólakennarann Jón sem reynir að átta sig á
tilverunni og sjálfum sér eina bjarta sumarnótt í Flatey á Breiðafirði.
Baltasar Kormákur leikstýrir myndinni, sem byggir á leikverki Antons
Tsjekov um Ivanov. Baltasar skrifaði handritið ásamt Ólafi Agli
Egilssyni. Kvikmyndin var tekin upp í ágústmánuði á síðasta ári í
blíðskaparveðri eins og gerist best á Breiðafirði.

Tilnefningar til Óskarsverðlauna verða kynntar í Los Angeles þann 22. janúar 2009 og hátíðin sjálf fer fram mánuði síðar, 22. febrúar.