Budweiser vill bjórinn burt

Drykkjarvörurisinn Anheuser-Busch InBev, sem býr til Budweiser bjórinn, hefur beðið Paramount kvikmyndafyrirtækið um að fjarlægja Budwaiser bjórinn úr myndinni Flight, sem frumsýnd var um helgina í Bandaríkjunum.

Myndin, sem leikstýrt er af Robert Zemeckis, fjallar um flugmann sem er alkóhólisti, og drekkur og tekur eiturlyf áður og eftir að honum tekst að koma í veg fyrir að biluð flugvél brotlendi.

Í einu atriði drekkur flugmaðurinn, sem Denzel Washington leikur, Budwaiser bjór á meðan hann er að keyra bíl, og það fer fyrir brjóstið á bjórframleiðandanum, enda sé þetta í andstöðu við það sem þeir hvetja til, þ.e. að neita drykkjarins á ábyrgan hátt.

Paramount hefur ekki tjáð sig um málið. Flight var ein best sótta mynd síðustu helgar í Bandaríkjunum, og fékk góða dóma gagnrýnenda.