Bandaríska dagblaðið The New York Times sagði frá því um helgina að Paramount Pictures og Marvel Studios muni nota titilinn Captain America: The First Avenger fyrir samnefnda mynd í öllum löndum utan Bandaríkjanna, nema þremur, en það er nokkuð algengt að myndir fái nýtt heiti utan Bandaríkjanna. Til dæmis heitir myndin The Hangover Part ll „Very Bad Trip 2“ í Frakklandi.
Samkvæmt blaðinu þá voru stúdíóin að velta fyrir sér að kalla Captain America myndina einungis The First Avenger utan Bandaríkjanna, en alþjóðleg markaðsdeild Paramount setti sig upp á móti því, þar sem Captain America væri það þekkt vörumerki alþjóðlega.
Þau lönd sem nota bara The First Avanger eru Rússland, Úkraína og Suður Kórea. The New York Times greinir frá því að ástæðan fyrir nafnabreytingunni í einkum fyrri tveimur löndunum sé pólitísk og menningarleg, en einnig séu ákveðin and-bandarísk viðhorf til staðar í löndunum. Í Suður Kóreu, sem er mjög sterkt land aðsóknarlega fyrir bandarískar myndir, þá er það viðvarandi vera bandarísks herliðs í landinu, sem skapar ákveðna viðkæmni í garð Bandaríkjanna, og því var ákveðið að breyta nafninu þar í landi.
Bandarísk stúdíó gera reglulega ýmsar breytingar í markaðssetningu sinni utan Bandaríkjanna, auk þess að breyta um heiti mynda. Árið 2006 breytti Warner Brothers setningunni „Truth, justice and the American way“ yfir í „truth, justice and all that stuff,“ í myndinni Superman returns. Paramount gerði svipað þegar þau breyttu línunni „A Real American Hero“ í G.I. Joe frá 2009, yfir í „The Rise of Cobra“.
Captain America varð til hjá Marvel árið 1940 sem ódulinn áróður gegn uppgangi nasista. Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 22. júlí nk. Í stuttu máli fjallar hún um ungan mann sem þykir of væskilslegur til að komast í herinn, og en skráir sig í tilraun þar sem honum er breytt í leynilegt vopn.
„Captain America: The First Avenger“ verður líklega ekki dreift í Kína, sem er sífellt að verða mikilvægari markaður fyrir bíómyndir. Kína leyfir aðeins sýningar á 20 erlendum myndum á ári í landinu.