Cranston segir fólki að róa sig

bryan cranstonÁ dögunum sögðum við frá því að samkvæmt heimildum vefsíðunnar Cosmic Book News hefði Bryan Cranston úr sjónvarpsþáttunum Breaking Bad, verið ráðinn til að leika sjálfan Lex Luthor, erkióvin Superman, í myndinni Man of Steel 2 þar sem þeir Superman og Batman sameina krafta sína.

Síðan þá ( í raun byrjaði hann löngu áður ) þá hefur orðrómurinn orðið sífellt háværari án þess að formleg staðfesting hafi verið birt um málið. Cranston sjálfur segir í samtali við Boston.com að fólk ætti að róa sig aðeins. „Þetta eru allt fréttir fyrir mér,“ sagði Cranston þegar hann var inntur eftir því hvort að orðrómurinn væri sannur, og hann hefði í raun skrifað undir sex mynda samning við Warner Bros kvikmyndaverið. „Ég held að ég sé inni í umræðunni af því að ég er orðinn þekktur fyrir að vera með skalla [ eins og Lex Luthor ].“

„Hvaða sköllótta karl getum við fengið?“ heldur Cranston áfram. „Í rauninni geta þeir tekið hvaða leikara sem er, rakað af honum hárið eða sett á hann gerviskalla.“

En ef hann er ekki að fara að leika Luthor, hvað ætlar Cranston að gera eftir að hann hættir að leika í Breaking Bad? „Ég held að ég slappi af það sem eftir lifir ársins,“ segir hann. „Ég er með einhver járn í eldinum, hluti sem fólk er að tala um, en ekkert er ákveðið.“

Cranston neitar þessu sem sagt ekki alveg, miðað við þessi orð hans, en amk. virðist sem samningur sé ekki enn undirritaður.

Batman Vs. Superman, eða Man of Steel 2, verður frumsýnd í Bandaríkjunum 17. júlí 2015.