Leikarinn Matt Damon mun snúa aftur sem minnislausi leigumorðinginn, Jason Bourne, í fimmtu myndinni í samnefndri seríu. Damon hefur leikið Bourne í þremur myndum hingað til. Leikstjórinn Paul Greengrass mun einnig snúa aftur, en hann leikstýrði annarri og þriðju myndinni. Þetta staðfesti Damon við E! News og að myndin yrði væntanleg árið 2016.
Framleiðslufyrirtæki seríunnar, Universal Pictures, hefur því ákveðið að setja hliðarpersónuna Aaron Cross, sem var leikinn af Jeremy Renner í fjórðu myndinni, til hliðar og einbeita sér frekar að aðalpersónunni, Jason Bourne.
Í fyrstu myndinni er Bourne eltur uppi af fólki sem hann veit ekkert um. Það sem gerir málið verra er að hann þjáist sjálfur af minnisleysi, sem að þýðir að hann veit ekkert hver hann er eða í hvað hann er flæktur.
Bourne serían er ein stærsta og mikilvægasta sería Universal. Fjórða myndin, The Bourne Legacy, þénaði t.a.m 276 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu.