Hasarhetjan Vin Diesel, sem leikur aðalhlutverk í hinni nýfrumsýndu The Last Witch Hunter ásamt Ólafi Darra Ólafssyni, vill að meðleikari hans í Fast and Furious 7 verði næsti James Bond.
Leikarinn, sem er 48 ára gamall, segir að Luke Evans, 36 ára, sé heppilegur arftaki Daniel Craig sem njósnari hennar hátignar, 007.
Í samtali við vefsíðuna Digital Spy sagði hann að Luke, sem lék breska þorparann Owen Shaw í Fast and Furious myndunum, hefði gefið Fast myndunum Bond-yfirbragð, og hann styddi hann í hlutverk Bond, fari svo að Craig, núverandi James Bond, hætti.
Daniel Craig hefur gefið misvísandi skilaboð um hvort að hann hyggist leika í fleiri Bond mynum, en nýjasta myndin, Spectre, verður frumsýnd hér á landi 6. nóvember nk. Athygli vakti nú á dögunum þegar hann sagðist frekar vilja skera sig á púls, en leika Bond á ný.
Craig sagði nýlega: „Ég hef rétt á því að skipta um skoðun hvenær sem ég vil. Og stundum segi ég hluti, eins og þessa, þegar ég er spurður spurningarinnar „Myndirðu leika í annarri mynd“, tveimur dögum eftir að átta mánaða tökum lýkur.“