Disney þénar milljarð á 174 dögum

Disney Studios kvikmyndaverið tilkynnti í gær að tekjur þess af sýningum á myndum sínum í Bandaríkjunum á þessu ári, væru komnar yfir einn milljarð Bandaríkjadala.

inside-out

Það tók Disney aðeins 174 daga að ná þessu takmarki, sem er met, en fyrra metið var 188 dagar, sett árið 2012.

Þetta er 10. árið í röð og 19 árið í heildina, sem kvikmyndaverið fer yfir milljarðs dollara markið í Bandaríkjunum á einu ári.

„Við erum ánægð með að áhorfendur um land allt hafa tekið myndum okkar vel, og eru að sjá þær á þann hátt sem þær eru ætlaðar, á hvíta tjaldinu,“ sagði Dave Hollis, yfirmaður dreifingar hjá Disney í yfirlýsingu.

Nýjasta myndin, Inside Out, var frumsýnd um síðustu helgi og hlaut gríðargóðar viðtökur, en 90,4 milljónir dala komu í kassann á frumsýningarhelginni í Bandaríkjunum og Kanada, sem gerir myndina að annarri aðsóknarmestu kvikmynd Disney í sögunni á frumsýningarhelgi.

Aðrar myndir Disney á þessu ár eru Avengers: Age of Ultron, með 450,2 milljónir dala, Cinderella, með 199,8 milljónir dala, og Tomorrowland, en sú mynd hefur gengið hvað síst, og þénað 88 milljónir dala í Bandaríkjunum til þessa.

Enn eru sex mánuðir eftir af árinu og ýmsar stórmyndir væntanlegar, eins og Ant-Man, í júlí, og Star Wars Episode VII, The Force Awakens, í desember.