Moana næst vinsælust í sögunni

Disneyteiknimyndin Moana, eða Vaiana eins og hún heitir hér á Íslandi, var best sótta myndin í Bandaríkjunum yfir Þakkargjörðarhelgina sem nú er að renna sitt skeið, og þénaði 81,1 milljón Bandaríkjadali yfir fimm daga tímabil og 55,5 milljónir dala ef litið er til helgarinnar eingöngu.

moana-vaiana

Þetta er enn ein rósin í hnappagat Disney, en hver myndin á fætur annarri hefur slegið í gegn frá fyrirtækinu á árinu. Fimm af tíu tekjuhæstu myndum ársins í Bandaríkjunum koma frá Disney; Zootopia, Doctor Strange, Finding Dory, The Jungle Book og nú Moana. Viðbúið er að ein mynd til viðbótar fylli þennan flokk, en Rogue One: A Star Wars Story verður frumsýnd í desember.

Aðrar nýjar myndir í bíó í Bandaríkjunum náðu ekki viðlíka árangri og Moana. Brad Pitt myndin Allied þénaði 18 milljónir dala yfir dagana fimm, sem eru vonbrigði í ljósi þess að kostnaður við gerð myndarinnar losar 85 milljónir dala.

Myndin fjallar um njósnara, sem Pitt og Marion Cotillard leika, sem giftast, en ástarsamband þeirra verður síðar hluti af stóru samsæri. Flight leikstjórinn Robert Zemeckis leikstýrði.

Allied kemur úr smiðju Paramount framleiðslufyrirtækisins, en þeir hafa átt misgóðu gengi að fagna á árinu, með myndir eins og Teenage Mutant Ninja Turtles: Out of the Shadows og Zoolander 2, sem hvorug náði miklu flugi.

Jólamyndin Bad Santa 2, sem er frá Broad Green og Miramax kvikmyndafyrirtækjunum, náði heldur ekki að fanga athygli bíógesta í stórum stíl, en myndin, sem er framhald hinnar sígildu Bad Santa frá árinu 2003, þénaði níu milljónir dala yfir fimm daga tímabilið. Framleiðslukostnaður myndarinnar er 25 milljónir dala, þannig að hún á enn nokkuð í land með að ná upp í þann kostnað.

Ekki hefur gengið nógu vel hjá Broad Green uppá síðkastið. Fyrirtækið hefur sent frá sér nokkrar myndir sem valdið hafa vonbrigðum í miðasölu, myndir eins og The Infiltrator, dóp-tryllir með Bryan Cranston í aðalhlutverki, 99 Homes, hrun-drama með Andrew Garfield í aðalhlutverki, og A Walk in the Woods, sem hefur gengið hvað best af þessum myndum, en myndin er gamanmynd með Robert Redford í aðalhlutverki.

Nýjasta mynd Warren Beatty, rómantíska gamanmyndin Rules Don’t Apply, var einnig frumsýnd nú um helgina, við dræmar undirtektir,  en myndin þénaði einungis 2,2 milljónir dala á fimm dögum. Myndin, sem Beatty hefur varið síðustu 10 árum í að fjármagna og undirbúa, og fjallar um athafnamanninn Howard Hughes, kostaði 25 milljónir dala.

Aðsókn á myndin er ein sú versta í sögunni fyrir mynd sem frumsýnd er í fleiri en 2.000 bíósölum, samkvæmt Variety.

Toppmynd helgarinnar, Moana, sem fjallar um stúlku á Kyrrahafseyju, sem fer í ferðalag yfir hafið til að bjarga þjóð sinni, hlaut aðra mestu aðsókn á þakkargjörðarhelgi í sögunni, en einungis Frozen fékk meiri aðsókn, eða tekjur upp á 93,6 milljónir dala yfir fimm daga Þakkargjörðarhelgarinnar.