Dregin yfir mulið gler og glóandi kol

Fyrsta kvikmyndin í hrollvekjuþríleiknum The Strangers, The Strangers: Chapter 1, er komin í bíó á Íslandi.
Leikstjóri myndarinnar, Renny Harlin, sem margir þekkja fyrir myndir eins og Cliffhanger og The Good Kiss Good Night, segir um val á aðalleikkonunni Madelaine Petsch, í samtali við vefmiðilinn ComingSoon, að ekki hafi nægt að finna einhverja huggulega og góða leikkonu í hlutverkið heldur hafi orðið að vera eitthvað sérstakt við hana.

Myndin segir frá því þegar ungt par, leikið af Petsch og Froy Gutierrez, neyðist til að eyða nóttinni í kofa úti í sveit, eftir að bíllinn bilar. Örvænting grípur um sig þegar þrír grímuklæddir menn ráðast á þau og sýna þeim enga miskunn. Svo virðist sem það sé enginn tilgangur með árásinni.

„Eftir að hafa prófað mikinn fjölda leikkvenna sáum við strax í Zoom spjalli við Madelaine að hún hefði allt það sem til þyrfti. Við vissum að hún væri falleg, en hún var sterk, kom vel fyrir sig orði, hún var vel gefin, heillandi, fyndin, ástríðufull og þú gast fundið fyrir henni í rýminu. Við vissum samstundis að hún væri rétta leikkonan í hlutverkið.“

Gaf sig alla í verkefnið

Harlin segir að þegar kom að tökum og undirbúningi þeirra þá hafi það sannast að leikkonan gaf sig alla í verkefnið. „Hún lagði mikið á sig líkamlega og andlega, og kom með frábærar hugmyndir. Þannig að hún varð magnaður samstarfsmaður og hjálpaði til við handritið og persónurnar, samtalið og fleira. Kvikmyndin er einskonar þróunarverkefni á sama tíma og verið er að taka hana upp, sérstaklega þegar þú tekur upp alla þrjá kaflana í þríleiknum samtímis eins og við gerðum. Þannig að ég get ekki ímyndað mér neinn annan gera það sem hún gerði, sérstaklega í annarri og þriðju kvikmyndinni. Við drögum hana yfir mulið gler og glóandi kol, og hún heldur bara áfram og áfram. Þannig að hún vann ótrúlegt afrek í myndinni.“

The Strangers: Chapter 1 (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn4.7
Rotten tomatoes einkunn 22%

Eftir að bíll þeirra bilar í uggvekjandi litlum bæ neyðist ungt par til að gista í kofa fyrir utan bæinn. Þau verða skelfingu lostin þegar þrír grímuklæddir menn ógna þeim alla nóttina af miklu miskunnarleysi og án nokkurrar ástæðu....

Blaðamaður ComingSoon segist hafa orðið mjög hrifinn af því hvernig leikstjóranum tókst að koma drunganum í smábænum í myndinni til skila þar sem allt er hálf lasburða. Það sé ákveðin fyrirboði um það sem kemur síðar.

„Það var virkilega áhugaverð áskorun að búa til þennan stað þar sem parið fer í byrjun kvikmyndarinnar, og ég vildi að það væri bær sem við öll könnuðumst við að hafa séð, hálf hrörlegur og nöturlegur en ekkert sérlega merkilegur. Bara að þú ferð á bensínstöðina eða á matstaðinn, og ef þú gýtur augunum á fólkið þar inni ferðu að hugsa: „Ertu að stara á mig? Hvað eru þau að hugsa?“ Eru þetta slæmar hugsanir eða góðar?

Ekki öll raðmorðingjar

Það sem ég vildi forðast var að áhorfendum myndi líða eins og „Ah, þetta er bær fullur af klikkuðu fólki. Þau eru öll raðmorðingjar,“ eða eitthvað álíka. Ég vildi hafa ákveðna raunveruleikatengingu og sýna bæ sem er eins og hver annar staður í Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum, en samt með áhugaverðu fólki í. Þú horfir á andlit þeirra og söguna á bakvið, en þau eru venjulegt fólk. Þannig að það var aðalatriði fyrir mig í þesssari kvikmynd, að hafa þetta trúlegt, raunverulegt, og láta okkur finna til samlíðunar með persónunum.“