Ég drap mömmu opnar RIFF

Opnunarmynd Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í
Reykjavík 2009 ( RIFF ) verður kanadíska verðlaunamyndin „Ég drap mömmu mína“ eða J‘ai
Tué Ma Mère. Xavier Dolan leikstýrir, framleiðir, skrifar handritið og leikur
aðalhlutverkið í þessari mynd.
Í fréttatilkynningu frá kvikmyndahátíðinni segir að leikstjórinn sé aðeins tvítugur að aldri og þyki óvenjulega
hæfileikaríkur. „Myndin er byggð á hans eigin ævi og fjallar um samband
samkynhneigðs unglings, Huberts, við móður sína, Chantale. Á sama tíma og gjáin
á milli þeirra stækkar ört taka þau að átta sig á því að þótt þau séu sennilega
ófær um að búa saman geti þau að öllum líkindum ekki verið án hvors annars,“ segir í fréttinni.

„Xavier Dolan er kanadískur kvikmyndaleikstjóri
og leikari fæddur árið 1989. Hann byrjaði ungur að leika
í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ég drap mömmu mína er fyrsta mynd hans en
hún vakti feiknarlega athygli á Kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor. Þar hlaut
hún fyrstu verðlaun í Director’s Fortnight flokknum ásamt því að hafa unnið
SACD verðlaunin og C.I.C.A.E. verðlaunin sömuleiðis. Um er að ræða Norðurlandafrumsýningu
myndarinnar á RIFF.

Opnunarmyndin er fjarri því sú eina frá Kanada
sem sýnd verður á RIFF í ár. Að þessu sinni mun hátíðin bjóða upp á frábært
úrval nýrra kanadískra mynda, þar á meðal tvær heimildamyndir en Kandamenn
standa mjög framarlega í þeirri grein kvikmyndalistarinnar. Kanadískir
kvikmyndagerðarmenn og -leikarar hafa leitað suður yfir landamærin til
Bandaríkjanna eftir frægð og frama. Nefna mætti leikstjóra á borð við
David Cronenberg, Paul Haggis, Norman Jewison og James Cameron sem gerði
aðsóknarmestu mynd sögunnar,
Titanic. Sumir myndu kannski tala um
atgervisflótta en það væri samt fráleitt að halda því fram að kanadísk
kvikmyndagerð standi ekki traustum fótum. Þar í landi hafa verið gerðar margar
áhugaverðustu kvikmyndir síðustu ára. Gestir RIFF fengu til dæmis að kynnast
framúrstefnulegum kvikmyndum Guys Maddin á fyrstu hátíðinni 2005 og Atom Egoyan
var gestur hátíðarinnar fyrir tveimur árum,“ segir í fréttatilkynningu hátíðarinnar.
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík stendur frá  17.-27.september.