Er þetta ég? spyr Mandela

Leikstjórinn Justin Chadwick, höfundur hinnar ævisögulegu myndar Long Walk to Freedom um ævi frelsishetjunnar suður-afrísku Nelson Mandela, segir að Mandela sé rafmagnaður persónuleiki. Hann segir að hann eigi það einmitt sameiginlegt með The Wire og Luther stjörnunni Idris Elba, sem leikur Mandela í myndinni. „Þegar þú eyðir tíma með Idris, þá finnur þú sömu orkuna.“

Mandela: Long Walk to Freedom

Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto sem nú stendur yfir, en myndin er kvikmyndagerð af samnefndri sjálfsævisögu Mandela.  Mandela samþykkti persónulega leikaravalið í myndina, þó svo að útlitsleg líkindi með þeim Elba séu ekki augljós.

Framleiðandinn Anant Singh sýndi forsetanum fyrrverandi nokkrar senur úr myndinni í lok síðasta árs á iPad. „Er þetta ég?“ spurði Mandela, þegar hann sá myndirnar.

Singh útskýrði síðan hvernig Elba hefði verið gerður eldri með förðun, og þá hló forsetinn, sagði Singh á blaðamannafundi vegna myndarinnar. „En hann samþykkti Idris“.

Idris sjálfur hitti aldrei Mandela en eyddi tíma í Suður Afríku, hitti fólk og heimsótti lykil staði í sögunni. Hann eyddi meira að segja einni nótt í fangelsinu sem Mandela var í á Robben eyju í 27 ár.

Elba, sem er 41 árs, segir að eftir að hafa kynnt sér ævi Mandela hafi orðið þolinmæði fengið nýja þýðingu í huga sér.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: