Eva Green hefur bæst við leikarahópinn í framhaldsmyndinni Sin City: A Dame to Kill For.
Green, sem sló í gegn í Bond-myndinni Casino Royale, mun leika hina hættulegu „femme fatale“ Ava Lord. Að sögn höfundarins og leikstjórans Frank Miller er Lord: „Draumur hvers einasta manns en á sama tíma hans versta martröð“. Green vakti síðast athygli í mynd Tim Burton, Dark Shadows.
„Okkur hefur lengi langað að segja þessa sögu. Ava Lord er einn hættulegasti og um leið mest heillandi íbúi Sin City. Við erum himinlifandi yfir því að Eva Green hafi gengið til liðs við okkur,“ sagði í yfirlýsingu Miller og hins leikstjórans, Robert Rodriguez.
Aðrir sem hafa staðfest þátttöku sína í Sin City: A Dame to Kill For eru Mickey Rourke, Jessica Alba, Bruce Willis, Rosario Dawson og Jaime King, sem voru öll í fyrri myndinni.
Á meðal nýrra andlita verða Josh Brolin, Joseph Gordon-Levitt, Jeremy Piven og Ray Liotta. Tökur eru hafnar í Texas og er myndin væntanleg í bíó 4. október.