Opnunarmynd næsta bíósumars verður hinn gríðarstóra The Avengers, eins og fastagestir vefjarins gera sér eflaust grein fyrir, og mun spennan gagnvart myndinni aukast með hverjum mánuðinum. Ýmsir hafa þó kannski smá áhyggjur af afrakstinum þar sem myndin sameinar nokkuð margar persónur í eina brelludrifna hasarmynd. Það tíðkast ekki sjaldan að Hollywood sýnir hasarnum miklu meiri áhuga heldur en persónusköpun og samskipti karaktera í heild sinni. Chris Evans (Captain America) sagði í nýlegu viðtali við Huffington Post að þetta væri ekki áhyggjuefni og að leikstjórinn Joss Whedon vissi alveg hvað hann væri að kljást við.
„Mér finnst Joss hafa fundið mjög gott jafnvægi á þessu,“ segir Evans. „Augljóslega verður mikill hasar til staðar. Það er varla annað hægt þegar svona margar ofurhetjur eru á einum stað. Ég held að á 10 blaðsíðna fresti í handritinu gerist eitthvað stórt. En það vita flestir að ef það fylgir ekkert innihald með þessu, þá skiptir myndin engu máli.“
„Ég vil ekki tala of illa um aðrar myndir,“ bætir hann við, „en ég veit að fullt af öðrum stórmyndum leggja of mikla áherslu á sprengjur, læti og eru alfarið lausar við hjarta. Það hefur alls ekki verið auðvelt að finna hjartað og sögukjarnann í þessari mynd útaf öllum persónunum en það er eitt það besta við Joss. Hann er aðdáandi fyrst og fremst og síðan leikstjóri. Hann er myndasögufríkið sem maður sér yfirleitt í áhorfendasalnum á Comic-Con hátíðum. Ef hann er sáttur þá hef ég engar áhyggjur.“
The Avengers kemur í bíó í lok apríl á næsta ári.