Warner bræður misstu kvikmyndaréttinn yfir barbaranum Conan fyrir nokkru eftir 7 ára streð við að reyna að koma endurgerð á laggirnar. Nú hefur New Line sýnt tilburði til að öðlast kvikmyndaréttinn.
Sú mynd sem fyrir er, Conan the Barbarian skartaði hvorki meira né minna en vöðvasprengjunni Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Myndin er ansi frábrugðin bókinni sem Robert E. Howard skrifaði, svona eins og gengur og gerist í kvikmyndaheiminum. Nú á dögum hefur það hins vegar færst í aukana að menn reyni að fylgja bókunum betur eftir og það verður því áhugavert að sjá hvort endurgerðin, ef hún þá nokkurn tímann verður að veruleika, verði meira í anda bókarinnar eða myndarinnar frá 1981.

