Leikstjóri Wonder Woman, Patty Jenkins, sagði í samtali við Playboy tímaritið að hún hafi fengið sjokk þegar hún heyrði að ísraelska leikkonan Gal Gadot hefði verið ráðin í hlutverk Wonder Woman.
Gadot var ráðin í hlutverkið áður en Jenkins kom að verkefninu, og hún segir að hún hafi upplifað sig varnarlausa yfir vali Zack Snyder á ofurkonunni.
„Ég man þegar ég las það í fréttunum að ráðið hefði verið í hlutverk Wonder Woman, að ég fékk sjokk,“ segir Jenkins. Ég hafði lengi átt í viðræðum við kvikmyndaverið um að leikstýra myndinni, og ég hugsaði „svona er þetta þá“. Ég er viss um að ég hefði valið aðra leikkonu.“
En svo virðist sem Jenkins hafi endað með að vera ánægð með valið. „Í sannleika sagt, þá held ég að þeir hafi valið betur en ég hefði getað gert af því að ég held að ég hefði ekki leitað eins víða að réttu leikkonunni og þeir gerðu,“ bætti Jenkins við.
„Ég er ekki viss um að ég hefði leitað út um allan heim. Ég hefði bara leita að bandarískri stúlku … hún er frábær.“
„Hún er hugrökk, sterk, ljúf, elskuleg, og hörð í horn að taka – Gal er allt sem þú getur ímyndað þér að Wonder Woman eigi að vera.“
Jenkins, sem leikstýrði síðast kvikmyndinni Monster frá árinu 2003 með Charlize Theron í aðalhlutverkinu, og er fyrsta konan sem leikstýrir ofurhetjumynd, sagði tímaritinu að þegar hún sá Gadot fyrst á tökustað tilbúna í búningnum, þá hafi hún skyndilega orðið sjö ára stelpa á ný. „Ég vildi bara fara til hennar og taka í höndina á henni og snerta hárið, þetta var mjög svalt.“
Tekjuhæsta mynd allra tíma í leikstjórn konu
Tekjur Wonder Woman af sýningum í Bandaríkjunum um helgina námu 101 milljón bandaríkjadala, sem þýðir að um er að ræða tekjuhæstu mynd allra tíma á frumsýningarhelgi í leikstjórn konu. Fyrra met átti Sam Taylor-Johnson fyrir mynd sína Fifty Shades of Grey, en tekjur hennar á frumsýningarhelgi námu 85,1 milljón dala.