Fimm ástæður til að horfa á „Class of 1984“

„Class of 1984“ (1982) er spennumynd sem fjallar um ágreining afleysingjakennara við einstaklega illskeyttan hóp af nemendum. Myndin hefur alltaf þótt vera stórlega ýkt og sérlega ofbeldisfull og hefur meira og minna verið afskrifuð af gagnrýnendum sem heilalaus skemmtun fyrir þá sem gera litlar kröfur og eru helteknir af gegndarlausu ofbeldi.

Andy Norris (Perry King) er tónlistarkennari sem fer að vinna við Lincoln High. Strax kemur hann auga á að einn samkennari hans, Terry (Roddy McDowall), er með byssu í skjalatösku sinni og skólinn líkist meira vígvelli en menntastofnun. Fljótlega lendir hann upp á kant við nemandann Peter Stegman (Timothy Van Patten) og gengi hans og fjandsemin þeirra á milli stigmagnast. Á endanum grípur hópurinn til þess að ráðast á ófríska eiginkonu Andys og úr verður blóðugt uppgjör milli Andy og nemendanna.

Það er rík tilhneiging hjá flestum að sjá réttlætinu fullnægt og þegar allar dyr virðast lokaðar skýtur frummaðurinn í okkur upp kollinum og skynsemi og rökhyggja skella sér í aftursætið. Við hliðina á myndum eins og „A Serbian Film“ (2010), „Antichrist“ (2009) og „Human Centipide“ (2009-2015) er hæpið að „Class of 1984“ hneyskli marga í dag en hún viðheldur ákveðnum mætti í að ganga fram af áhorfandanum og laða fram í honum frummanninn sem lætur eftir hefndarþorsta sínum.

Taka skal skýrt fram að endinum á myndinni er ljóstrað upp í síðustu upptalningunni.

  1. Ofbeldi og neysla/sala eiturlyfja í skólum var vandamál í uppsiglingu árið 1982

Leikstjóri „Class of 1984“, Mark L. Lester, varð var við aukinn fréttaflutning af ofbeldi í skólum víðs vegar um Bandaríkin og fékk þar með áhuga á að gera kvikmynd sem myndi fjalla um málefnið. Opinberar tölur frá 1982 greina frá því að rúmlega 1.000 morð voru framin af unglingum.  Í myndinni eru nemendur látnir ganga í gegnum málmskynjara og öryggisverðir gera upptæk heilan helling af vopnum. Þó svo að slík varrúðarráðstöfun sé ekki viðtekin venja í dag (hvað þá árið 1982) þá er hún notuð í sumum skólum í Bandaríkjunum.  Ofbeldi í skólum hefur aukist með hverjum áratugnum sem hefur liðið og í mörgum hverfum sér ekki fyrir endann á þeim. Einnig sýnir „Class of 1984“ frá mjög svo sýnilegri neyslu eiturlyfja sem og sölu á þeim. Meira að segja „góðu“ nemendurnir láta freistast. Myndir eins og „Blackboard Jungle“ (1955), „High School Confidential!“ (1958) og „To Sir, With Love“ (1967) og fleiri höfðu greint frá vandamálum innan veggja menntastofnana en engin þeirra gekk eins langt með þessi málefni og „Class of 1984“.

  1. Kennarinn er varnarlaus gagnvart nemendum

Ef staðan er orð gegn orði þá er eingöngu hlustað á nemandann. „Það er ætlast til að kennarar séu ábyrgir,“ segir skólastjórinn en undirtextinn þar er að ekki sé hægt að ætlast til þess af nemendum. Í einu mögnuðu atriði þegar Stegman og Andy eru tveir einir grípur nemandinn til þess að skaða sjálfan sig fyrir framan kennarann og í kjölfarið er Andy kærður fyrir líkamsárás.

Sama ber upp á teninginn þegar Andy sér gengið kveikja í bílnum hans og hann leitar til lögreglunnar. „Krakkarnir gætu fengið 20 aðra nemendur um hæl til að staðfesta að þeir voru með þeim þegar umrætt atvik átti sér stað,“ segir lögreglustjóri við Andy. Enn betri lína er „þú þarft að vera haldandi í hendina á ungling á meðan hann rænir þig ef þú ætlar að sanna brotið,“ er Andy tjáð þegar kemur að sönnunarbyrði á einstaklinga undir lögaldri. Þegar Andy fær gengið upp á móti sér kemur hann alls staðar að lokuðum dyrum og er sagt að leiða þetta hjá sér. Þetta er sannur hryllingur að upplifa.

  1. Frábær leikur hjá Timothy Van Patten.

Allir leikararnir í „Class of 1984“ standa sig vel. King og McDowall eru mjög fínir og einnig bregður hér fyrir Michael J. Fox í einu af hans fyrstu hlutverkum. Það er þó Timothy Van Patten í hlutverki Stegman, foringja hópsins sem hrellir Andy, sem er óumdeild stjarna myndarinnar. Það er viðeigandi að þegar Stegman er kynntur til sögunnar grípur hann til nasistakveðju þegar hann segir kennaranum nafnið sitt og gengið hans gerir slíkt hið sama. Hann hefur þennan sjarma sem þarf að fylgja leiðtoga en einnig hæfileika, gáfur og einstaklega illa innrætt eðli. Hann er þó ekki allur þar sem hann er séður en myndin reynir ekki að útskýra hann í þaula og skilur eftir margt fyrir áhorfandann til að fylla inn í. Mjög gott atriði er þegar hann sest óvænt við píanóið og heillar Andy með spilamennsku sinni. Þetta er nánast eins og lognið á undan storminum en gríðarlega fallegt verk sem Stegman leikur og um stund glittir í persónuna sem hann gæti verið. Það varir þó ekki lengi.

  1. Kennari mundar byssu í kennslustund

Kennarar hafa sagt í gríni að til þess að fá óskerta athygli allra nemenda þyrfti að beina byssu að þeim. Jæja, hér er látið á það reyna. Terry grípur til byssu sinnar og með því móti sitja nemendur grafkyrrir og hlusta á hvert orð sem hann segir en, vitanlega, skíthræddir á sama tíma. Terry gengur hringinn og krefur þá um svör við spurningum sínum og gleðst hreint svakalega þegar rétt er svarað. Það kemur á óvart að jafnvel meðlimir í gengi Stegmans svara rétt þegar spurðir.

Á þessum tímapunkti er Terry niðurbrotinn maður sem sér hversu erfitt það er að hafa einhver áhrif á mótandi huga nemanda þegar svona mörg rotin epli fá að gera það sem þeim sýnist. Hugsjón hans um að opna heiminn fyrir áhrifagjörnum ungmennum orðin að engu og vonleysi hefur tekið við.

  1. Andy drepur Stegman og gengi hans

Í lokauppgjörinu er ekkert verið að skafa af hlutunum. Andy hefur verið ýtt út á ystu nöf og nær sér niðri á Stegman og gengi hans með beinskeittum hætti; hann drepur þá.

Myndin fullnægir algerlega þörf áhorfandans fyrir réttlæti og höfðar á sama tíma til frumhvata mannsins um hefnd. Stegman og gengi hans eru svo viðurstyggilegar mannverur sem hafa ekkert sér til málsbóta og þegar yfirvöld (í skóla og í löggæslu) gera ekkert í málinu er það einstaklega ánægjulegt að sjá Andy útbýta steinaldarréttlæti. Svo eru þetta engir vettlingadauðdagar hjá Andy heldur mjög hrottalegir. Endirinn er nákvæmlega eins og áhorfandinn vill en allt eins líklegt er að honum líði pínu illa að myndinni lokinni yfir að hafa liðið svona vel skömmu áður.

„Class of 1984“ er stórlega ýkt, ekkert sérstaklega rökrétt og talsvert óábyrg kvikmynd en hún er sannarlega áhrifarík.

Þess má geta að myndin er til í flottri Blu-ray útgáfu frá Scream Factory í Bandaríkjunum.