Fimm myndir hafa nú verið valdar til þess að taka þátt í Sprettfisk 2015 sem er stuttmyndasamkeppni Stockfish – evrópskrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem verður haldin dagana 19. febrúar – 1. mars.
Hátíðin verður sannkölluð kvikmyndaveisla þar sem sýndar verða um þrjátíu kvikmyndir í fullri lengd auk stuttmyndanna og heimildarmynda. Frestur til að senda inn myndir í keppnina rann út 25. janúar og hefur nú forvalsnefnd valið fimm myndir sem verða sýndar á hátíðinni í einum pakka. Ein af þessum fimm myndum mun svo hljóta verðlaunin – Sprettfiskur 2015.
Stuttmyndirnar eru:
Herdísarvík – leikstjóri Sigurður Kjartan.
Gone – leikstjórar Vera Sölvadóttir og Helena Jónsdóttir.
Happy Endings – leikstjóri Hannes Þór Arason.
Foxes – leikstjóri Mikel Gurrea (framleiðandi Eva Sigurðardóttir)
Substitute – leikstjóri Madeleine Sims-Fewer (framleiðandi Eva Sigurðardóttir)
Stuttmyndasamkeppnin Sprettfiskur 2015 er unnin í samstarfi við Canon og Nýherja sem leggja til glæsileg verðlaun sem eru EOS 70D Body að verðmæti kr. 189.900.
Skilyrði fyrir þátttöku voru þær að stuttmyndirnar væru að hámarki að vera 30 mínútur og ekki meira en ársgamlar. Einnig gerir hátíðin þá kröfu að myndirnar hafi ekki verið sýndar opinberlega og að þær verði frumsýndar á hátíðinni.
Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík er hátíð kvikmyndaunnenda og byggir á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem var stofnuð árið 1978. Hátíðinni er ætlað annars vegar að höfða til fólks í kvikmyndagreininni og hinsvegar allra sem hafa áhuga á grósku alþjóðlegrar kvikmyndagerðar.