Sjötta Stockfish hátíðin að hefjast – Þessar myndir verða sýndar í ár

Stockfish, kvikmynda- og ráðstefnuhátíð, verður nú haldin í sjötta sinn dagana 12. mars – 22. mars. Hátíðin er bæði ætluð kvikmyndaunnendum sem vilja sjá alþjóðlegar verðlaunamyndir í bíó sem og fagfólki í kvikmyndabransanum.

Markmið Stockfish er að efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis sem og innanlands. Á hátíðinni fá gestir mikla innsýn í gerð myndanna og tækifæri til að eiga samtal við leikstjóra eftir sýningar með Q&A.

Í ár verður Stockfish með Nordisk Panorama Focus þar sem gestum gefst kostur á að sjá myndir frá Nordisk Panorama 2019. Í tengslum við heimildarmynda þemað heimsfrumsýnir Stockfish þrjár heimildarmyndir ár.

Opnunarmynd Stockfish í ár verður heimildarmyndin Q’s Barbershop sem vann hug og hjörtu áhorfenda á Nordisk Panorama í fyrra.

Q’s Barbershop er dönsk heimildamynd eftir Emil Langballe og
fjallar um rakarastofu Q‘s. Stofan býður upp á fleira en svalar hárgreiðslur því viðskiptavinir
Q er velkomið að létta á hjarta sínu í stólnum hjá honum hvað sem þá hrjáir. Áhyggjur þeirra
geta verið allt frá dönsku prófi yfir í hvernig bregðast eigi við kynþáttafordómum.

Einnig eru eftirfarandi titlar staðfestir ásamt fjölda annarra:

Proxima

Sarah (Eva Green) er einstæð móðir og geimfari í þjálfun hjá Evrópsku Geimstöðinni. Þegar hún er valin til að taka þátt í árslöngum leiðangri út í geim skapast togstreita á samband hennar við sjö ára dóttur hennar. Sarah er þjökuð samviskubiti og yfirþyrmandi ást gagnvart dóttur sinni.

The Painted Bird

The Painted Bird er byggð á skáldsögu Jerzy Kosiński sem fjallar um dreng af gyðingaættum í seinni heimstyrjöldinni. Foreldrar drengsins senda hann til ættingja í Austur Evrópu í tilraun sinni til að forða honum frá ofsóknum á hendur Gyðinga en þegar frænka hans deyr skyndilega þarf drengurinn á bjarga sér sjálfur í óvinveittri veröld.

Extra Ordinary

Rose eru ökukennari með yfirnáttúrlega hæfileika sem hún bæði hatar og elskar. Þrátt fyrir blendnar tilfinningar gagnvart hæfileikunum ákveður hún að koma nágranna sínum Martin og Söru, dóttur hans, sem er andsetin til hjálpar.

Color Out of Space

ath. aðeins ein sýning

Myndin er byggð á sögu H.P. Lovecraft „Color Out of Space“ með Nicholas Cage í Aðalhlutverki. Gardner fjölskyldan flyst úr borg í sveit með það fyrir augum að fá frið fyrir áreiti nútímans. Það er þó allt annað en friður sem bíður þeirra í sveitinni því eftir að loftsteinn lendir í garðinum þeirra breytist líf þeirra í litríka martröð.

Tolkien

Tolkien er ævisaga rithöfundarins sem skrifaði Hobbitann og Hringadróttins þríleikinni. Leikstjóri kvikmyndar er Dome Karukoski, einn af vinsælustu leikstjórum Finnlands sem hefur unnið yfir 30 kvikmyndaverðlaun. Nú seinast fyrir myndina Tom of Finland (2017). En Nicholas Hoult (Mad Max, Xmen) og Lily Collins (To the Bone, Rules Don’t Apply) fara með aðalhlutverkin í kvikmynd sem rekur sögu höfundar gegnum fyrri heimstyrjöld, vináttur og ástina allt sem fléttast saman við innblástur á Miðgarði og víðsfrægu bókunum.

Má þess geta að leikstjóri Tolkien, Dome Karukoski, staðfestir komu sína á Stockfish!

Monos

Á tindi fjarlægs fjalls í Suður Ameríku vakta átta vopnaðir barnungir skæruliðar gísl og heilaga mjólkurkú. Óvænt launsátur hrekur hópinn inn í frumskóginn þar sem hindranir og átök hrikta undan stoðum hópsins, svo útlit er fyrir að herferð þeirra renni út í sandinn.

The Sharks

Íbúar rólegs strandbæjar verður brugðið þegar sögusagnir fara á kreik um hákarla í sjónum við stendur bæjarins. Rosina, 14 ára gömul fámál stúlka, heldur að hún hafi séð eitthvað í sjónum en fáir veita henni athygli.
Stúlkan upplifir einnig áður óþekktar líkamlegar kenndir gagnvart einum stráknum í bænum en hann endurgeldur ekki áhuga hennar. Til að öðlast athygli hans tekur hún til sinna ráða, sem eru með öllu vanhugsuð og innblásin af hugmyndinni um hina meintu hákarla ógn.

Synonyms

Ungur maður frá Ísrael flytur til Parísar fullur eftirvæntingar og vonar um að hefja nýtt líf sem nýr maður fjarri átökum heimalands síns.

Invisible Life

Invisible Life fjallar um tvær systur frá Rio de Janeiro sem er stíað í sundur af föður sínum, báðar ímynda þær sér að hin lifi því lífi sem hún hafi ætlað sér. Sjónræn kvikmyndanautn í skærum litum með fallegum skotum og minnir á neo-noir kvikmynd sem hefur verið tekin úr spennumynda samhenginu og skellt í drama búning.

Leikstjóri myndarinnar er gestur Stockfish í ár.

And Then We Danced

Sagan fjallar um Merab sem er hæfileikaríkur dansari sem hefur æft stíft með það að markmiðið að komast inn í klassíska georgíska dansflokkinn ásamt dansfélaga sínum Mary. En þegar annar dansari, Irakli, sem er einstaklega hæfileikaríkur mætir á svæðið blossar upp rómantísk þrá sem gæti haft neikvæð áhrif á framtíð Merab.

First Love

First Love er eftir hinn margrómaða Takashi Miike sem hefur getið sér orðspor fyrir grófar ofbeldis senur og kynlífsatriði. Miike er afkastamikill leikstjóri en þetta er 90. myndin í fullri lengd sem hann leikstýrir. Meðal frægra titla eftir hann eru t.d. hrollvekjan Audition og fjölskyldumyndin Ninja Kids.

Myndin fjallar um sjálfumglaðan boxara sem á einni nóttu í Tokyo verður ástfanginn af vændiskonu og sama flækjast þau óvart inn í stórfellt fíkniefna smygl á vegum skipulagðra glæpasamtaka.

Humanity on Trial

Humanity on Trial er dönsk heimildarmynd um Salam Aldeen, sem ásamt öðrum aðstoðaði flóttafólk við strendur Grikklands. Kvikmyndin einblínir á mál Aldeen sem var ákærður fyrir að smygla flóttafólki inn í Grikkland. Kröftug mynd um mannúð og þau pólitísku öfl sem standa í vegi hennar.

Kvikmyndirnar sem sýndar verða á Stockfish munu allar birtast á sýningartímasíðu Kvikmyndir.is og í kvikmyndir.is appinu. Með því að smella á myndirnar er hægt m.a. að sjá leikara, söguþræði og stiklur úr öllum kvikmyndunum.

Sjá má meira um hátíðina á heimasíðu Stockfish.