Fyrstu fimm á Stockfish – hjartnæmar, fallegar, gamansamar og djúpar

Stockfish, kvikmynda- og bransahátíðin sem haldin verður í Bíó Paradís dagana 23. mars – 2. apríl, hefur nú opinberað fyrstu fimm af þeim kvikmyndum sem sýndar verða á hátíðinni.

Í tilkynningu frá Bíó Paradís segir að kvikmyndirnar séu fjölbreyttar, sumar hjartnæmar og fallegar, aðrar gamansamar eða á dýptina og enn aðrar fjalla um þær hörmungar sem stríð og fátækt kalla yfir fólk. „Allar eru þær einstakar hver á sinn hátt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir í tilkynningunni.

Brjálaður embættismaður

Meðal viðfangsefna eru vinátta tveggja ungra drengja, Evrópa séð með augum asna, brjálaður embættismaður á tímum Sovétríkjanna, konur í fangelsi og stríðið í Úkraínu séð með augum kvikmyndagerðarmannsins.

Í tilkynningunni segir að Stockfish muni halda áfram að kynna metnaðarfulla dagskrá þar sem boðið verði upp á valdar alþjóðlegar verðlaunamyndir ásamt ýmsum sérsýningum. Með myndunum koma gestir víðsvegar að úr heiminum.

Hér fyrir neðan eru myndirnar fimm:

CLOSE ( Belgía, Holland, Frakkland ) 2022
Leikstjóri: Lukas Dhont
Tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta erlenda myndin 2023.

“Close” er hluti af dagskrá Stockfish þar sem lögð er áhersla á kvikmyndir sem hlutu verðlaun eða tilnefningu til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem haldin voru í Reykjavík í Desember 2022.
Myndin segir frá innilegri vináttu tveggja 13 ára drengja, Leó og Remí, sem slitnar upp úr án fyrirvara. Leó á erfitt með skilja hvað gerðist og fer til móður Remí til að reyna fá útskýringar.

Myndin er lauslega byggð á reynslu leikstjórans.
Hún hlaut dómnefndarverðlaun Grand Prix á Kvikmyndahátíðinni í Cannes 2022 og var tilnefnd sem besta Evrópska kvikmyndin á European Film Awards 2022.

Alain Dessauvage, klippari Close, verður viðstaddur í “spurt og svarað” umræðu á “Stockfish Open Talks.”

MARIUPOLIS 2 ( Litháen, Frakkland, Þýskaland ) 2022
Leikstjóri: Mantas Kvedaravičius
Besta heimildarmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, 2022

Árið 2022 fór kvikmyndagerðarmaðurinn Mantas Kvedaravičius til, Mariupol í Úkraínu til að vera með fólkinu sem hann hafði kvikmyndað árið 2015. Kvedaravičius lést í stríðinu en eftir dauða hans ákváðu samstarfsmenn og framleiðendur hans að halda upp hans heiðri með því að miðla verkum hans og framtíðarsýn til áhorfenda. Verk Kvedaravičius talar á áhrifaríkan hátt beint inn í það ástand sem ríkti í Úkraínu vorið 2022 og ríkir því miður enn.

EO ( Pólland, Ítalía ) 2022
Leikstjóri: Jerzy Skolimowski
Tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta erlenda myndin 2023

EO er grár asni, fæddur í fjölleikahúsi. Við fylgjum honum á ferðalagi hans í gegnum nútíma Evrópu og sjáum ferðalagið með hans djúpu og döprum augum. Hann kynnist góðu og slæmu fólki en tapar aldrei sakleysi sínu. Myndin er innblásin af verki Bresson frá 1966 um asnan Balthazar. Hugljúf og gamansöm mynd sem hefur farið sigurför um heiminn og snertir á málefni sem er okkur öllum mikilvægt.

Tilnefnd til Óskarsverlauna sem besta erlenda myndin 2023, verðlaun fyrir bestu tónlist á European Film Awards 2022 og dómnefndarverðlaun á Cannes kvikmyndahátíðinni 2022.

THE RISE AND FALL OF COMRADE ZYLO ( Albanía ) 2022
Leikstjóri: Fatmir Koçi

Myndin byggir á albanskri skáldsögu, sem gerist á tímum Sovétríkjanna á áttunda áratugnum. Hún segir frá hetjudáðum embættismannsins Zylo sem starfar í Menntamálaráðuneytinu. Til að heilla yfirmenn sína fær Zylo Demka, upprennandi rithöfund til að skrifa fyrir sig stórkostlegar ræður og skýrslur. Allt saman byggt á lygilegum kenningum Zylo.

Leikstjóri myndarinnar Fatmir Koçi og framleiðandi hennar Mike Downey verða viðstaddir “Spurt og svarað” í tengslum við “Stockfish Open Talks.”

107 MOTHERS ( Úkraína, Slóvakía, Tékkland ) 2021
Leikstjóri: Péter Kerekes
Tilnefnd til fjölda verðlauna m.a. Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, sem uppgötvun ársins 2022.

Í Odesa kvennafangelsinu í Úkraínu er mæðrum leyft að afplána dóm sinn með börnum sínum þangað til að þau til verða þriggja ára. Við fylgjumst með líf þessara kvenna ásamt börnum þeirra og fangelsisvörðunum.

Leikstjóri myndarinnar Péter Kerekes, verður viðstaddur “spurt og svarað” pallborðsumræðum tengda “Stockfish Open Talks.