Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars nk. Um þrjátíu kvikmyndir í fullri lengd verða sýndar á hátíðinni og hefur hátiðin kynnt til leiks tíu fjölbreyttar kvikmyndir frá Evrópu og Bandaríkjunum. Allir eiga að geta fundið áhugaverðar kvikmyndir á dagskrá hatíðarinnar.
Amour Fou
Austurríki. Leikstjóri: Jessica Hausner.
Amour Fou er rómantísk gamanmynd sem byggð er á sögulegum atburðum frá því snemma á nítjándu öld. Hér segir frá ungskáldinu Heinrich von Kleist og tilraunum hans til að fá frænku sína til að taka þátt í sjálfsmorðssáttmála með sér.
A Girl Walks Home Alone at Night
Bandaríkin. Leikstjóri: Ana Lily Amirpour.
Sagan á sér stað í Vonduborg sem heimildir herma að sé staðsett í Kaliforníu. Myndin er svart-hvít og minnir að því leyti bæði á gamlar Jarmusch-myndir og Sin City. Í Vonduborg virðast aðeins vera búsettir Íranar, allir tala persnesku en eru klæddir eins og Hollywood-stjörnur á sjötta og sjöunda áratugnum. Til Vonduborgar hefur ratað dularfull og blóðþyrst stúlka – en þegar þessi vampírustúlka hittir sjálfan Drakúla út á götu verður hún ástfangin. Það flækir málin hins vegar að þetta er ekki Drakúla sjálfur, heldur mennskur strákur að nafni Arash sem er nýkominn af grímuballi.
Ida
Pólland. Leikstjóri: Pawel Pawlikowski.
Ida ætlar að verða nunna. En áður en hún getur svarið heit sín er hún send í heimsókn til frænku sinnar, sem er eina fjölskyldan sem hún á eftir. Frænkan segir henni í heimsókninni sannleikann sem ætíð hafði verið hulinn. Ida reynist vera af gyðingaættum og voru foreldrar hennar myrtir í seinni heimsstyrjöldinni. Þótt draugar fortíðar séu persónum myndarinnar hugleiknir og dramatísk saga Póllands á tuttugustu öldinni sé alltumlykjandi, þá er þetta fyrst og fremst þroskasaga ungrar stúlku sem þarf að endurskoða allt sitt gildismat. Pólland sjöunda áratugarins er sveipað svart-hvítum fortíðarblæ og myndin er bæði í senn einkar hófstillt og full af æskuþrótti.
Julia
Bandaríkin. Leikstjóri: Matthew A. Brown.
Við sjáum andlit stúlku sem kemur hægt upp rúllustiga. Myndavélin er á Júlíu – og fylgir henni nánast alla myndina. Júlíu var nauðgað hrottalega og er niðurbrotin. Hún kemst fyrir tilviljun í kynni við óvenjulegt meðferðarúrræði. En eru þeir sem sjá um meðferðina hugsanlega jafn slæmir og þeir sem nauðguðu henni? Gera allt til þess að ná henni á sitt vald? Er þetta kannski frekar sértrúarsöfnuður en heilunarmeðferð? Julia er grimm og blóðug mynd um ofbeldi, hefnd og vald.
The Mafia Only Kills in Summer
Ítalía. Leikstjóri: Pif.
Myndinni fjallar um Arturo sem var bókstaflega getinn á meðan mafían gerði skotárás á næstu hæð í fjölbýlishúsi foreldra hans. En ein einmana sáðfruma heyrði ekki skotin og kláraði ætlunarverk sitt. Þegar Arturo lærir svo að tala er orðið „mafía“ fyrsta orðið hans, sem er skiljanlegt fyrir strák sem elst upp í Sikiley áttunda áratugarins þar sem mafían er alltumlykjandi. Við fylgjumst með Arturo vaxa úr grasi, verða ástfanginn og reyna að átta sig á heiminum – á meðan mafían heldur áfram að lífláta fólk allt í kringum hann.
The New Girlfriend
Frakkland. Leikstjóri: Francois Ozon.
Myndin hefst í útför og við sjáum fallega stúlku í líkkistu. Laura var besta vinkona Claire allt frá því í barnæsku og Claire getur ekki ímyndað sér að neitt geti komið í hennar stað. Hún var búin að heita Lauru því að passa unga dóttur hennar og syrgjandi ekkilinn. Aldrei hefði hana getað grunað hvað myndi raunverulega felast hinu örlagaríka loforði.
Rocks in My Pockets
Lettland. Leikstjóri: Signe Baumane.
Þessi teiknimynd er fjölskyldusaga leikstýrunnar Signe Baumane en um leið speglar hún um margt tuttugustu aldar sögu Lettlands. Djúpur harmur er undirliggjandi, enda þunglyndi ættgengt í fjölskyldu Baumane. Leiftrandi húmor breiðir lengst af yfir þann harm – og myndskreytingar Signe eru afar skemmtilegar. Myndin sver sig í ætt við myndasöguævisögur á borð við Persepolis og MAUS. Þetta er teiknimynd stútfull af mögnuðum konum, skrítnum sögum, mannkynssögu, náttúru og ævintýrum, sögð með þykkum lettneskum hreim.
Days of Glory
Frakkland. Leikstjóri: Rachid Bouchareb.
Árið 1943 var Alsír ennþá undir stjórn Frakka og nokkrir ungir menn skráðu sig í herinn til þess að berjast gegn þriðja ríki Hitlers. En þeir komast fljótlega að því að þeir þurfa einnig að berjast gegn misréttinu sem nýlenduhermenn máttu þola í franska hernum. Við fylgjumst með hinum bláfátæka Saïd, sem er aðstoðarmaður liðþjálfa; Martinez, fransk-ættaðum Alsírbúa sem hefur samúð með málstað arabískra kollega sinna; Messaoud, sem verður ástfanginn af franskri konu í Province; og undirliðþjálfanum Abdelkader, verðandi fræðimanni með ríka réttlætiskennd. Þessir menn berjast í skugga mismununar sem birtist með ýmsum hætti. Frönsku hermennirnir fá betri mat, meira frí og eiga möguleika á stöðuhækkunum. Gamla loforðið um frelsi, jöfnuð og bræðralag verður æ minna sannfærandi.
London River
Frakkland. Leikstjóri: Rachid Bouchareb.
Sumarið 2005 gerðu hryðjuverkamenn fjórar sjálfsmorðsárásir á neðanjarðarlestir og strætisvagna í London. Þegar fréttist af árásunum hringdu flestir borgarbúar í sína nánustu til þess að fullvissa sig um að þeir væru heilir á húfi. En sumir fengu engin svör. Þeirra á meðal voru Elisabeth og Ousmane, tvær ókunnugar manneskjur með gjörólíkan bakgrunn sem kynnast þegar þau leita bæði uppkominna barna sinna. Bæði hafa misst samband við þessi uppkomnu börn sín og grunar ekki að þau séu sambýlisfólk.
Two Men in Town
Frakkland – Bandaríkin. Leikstjóri: Rachid Bouchareb.
Skilorðsfulltrúinn Emily (Brenda Blethyn) er nýflutt í smábæ í Nýju Mexíkó, rétt við landamæri Mexíkó. Hún vingast fljótlega við William (Forest Whitaker), en hann er einn af skjólstæðingum hennar og má ekki fara út fyrir sýslumörkin. William er nýorðinn frjáls eftir langa fangelsisdvöl en þarf sannarlega að hafa fyrir því að forðast gamla glæpalífið, enda skapstór með afbrigðum. Gamlir samverkamenn eru við hvert fótmál að freista hans og lögreglustjórinn sem kom honum í fangelsi (Harvey Keitel) er reiðubúinn að gera það aftur við fyrsta tækifæri.