Flugurnar þorðu ekki að stinga Statham

Jason Statham hefur nú um áratugaskeið byggt upp ímynd sem einn af hörðustu mönnum Hollywood. Statham er sannkallað hasartröll sem getur bæði látið mestu fauta finna til tevatnsins sem og risastóra forsögulega hákarla svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta og meira til leikur í höndunum á manninum.

Hann hefur einnig lifað á ofurmannlegum skammti af adrenalíni í einni myndinni og jafnvel sýnt annarri hetju, The Rock, hvar Davíð keypti ölið.

Statham er nú mættur í hefndartryllinum The Beekeeper sem komin er í bíó á Íslandi.
Þar leikur okkar maður Mr. Clay, fyrrum liðsmann sérsveitarinnar The Beekeepers, eða Býflugnabændurnir. En hann lætur ekki þar við sitja heldur dundar sér einnig sjálfur við alvöru býflugnarækt. Það þýðir að leikarinn þurfti að fást við alvöru býflugnabú við gerð myndarinnar – og veigraði sér ekki við því.

Kom á óvart

Statham hefur sumsé aldrei verið feiminn við að fara alla leið í áhættuatriðum eins og leikstjóri myndarinnar, David Ayer, segir Empire kvikmyndaritinu frá. “Það kom mér verulega á óvart hvað hann gerir mikið af áhættuatriðum sínum sjálfur,” sagði Ayer.

The Beekeeper (2024)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.3
Rotten tomatoes einkunn 71%

Grimmileg hefndarför eins manns hefur áhrif á þjóðfélagið allt eftir að í ljós kemur að hann er fyrrum liðsmaður háleynilegrar sérsveitar sem þekkt er undir nafninu Beekeepers, eða Býflugnabændurnir. ...

“Staðgengill hans sat bara og boraði í nefið, og vonaðist eftir að fá eitthvað að gera.”

Þetta átti líka við um býflugurnar, eins og fyrr sagði. “Tökuliðið skellti upp úr; Það er ekki séns að Jason Statham sé að fara að sýsla eitthvað við býflugur! En Jason vildi gera það. Þannig að við kynntum hann fyrir býflugnabónda, og hann lærði hvernig ætti að opna búið, ná í hunang og vinna með flugunum. Hann náði einskonar “Zen” búddískri nálgun á þetta,” segir Ayer og hlær.

Hann bætir við að býflugurnar hafi ekki þorað í Statham. “Er það eitthvað skrýtið? Jason fékk ekki eina stungu,” segir Ayer. “Ég var stunginn illa nokkrum sinnum, en það var allt í lagi. Ef þú ert að gera kvikmynd sem heitir Býflugnabændurnir, þá veistu að þú ert að fara að fá einhverjar stungur.”

Fáguð og svöl

Statham segir sjálfur í samtali við Variety að hann geti ekki beðið eftir að sýna fólki myndina. “Hún er mjög fáguð og svöl, og það er hlýja í henni og spenna,” sagði leikarinn. “Þetta er frábær kvikmynd. Ég er mjög stoltur af henni.”

Í kvikmyndinni er sögð saga Adams Clay, manns sem býr í hlöðu hjá gamalli konu, sem leikin er af Phylicia Rashad úr The Cosby Show. Þar sinnir hann býflugum og reynir að gleyma fortíð sinni. Þegar þrjótar ráðast að konunni og hennar eigum kemur forsaga Clay í ljós, en hann var áður liðsmaður stórhættulegrar sérsveitar og nú mega óþokkarnir fara að vara sig.