Blendnar tilfinningar bærðust í brjósti bandaríska Spider-Man leikarans Andrew Garfield þegar hann fór í fyrsta skipti í Spider-Man búninginn sem hann mun nota í nýju Spider-Man myndinni. Aðspurður um það sagði hann: „Það var mjög spennandi. Það var frábært, það var meiriháttar, en um leið ógnvænlegt og yfirþyrmandi,“ sagði leikarinn þegar hann var gripinn glóðvolgur af blaðamanni Access Hollywood fréttamiðilsins, þegar hann mætti til að vera viðstaddur DVD og Blu-ray útgáfuhóf myndarinnar The Social Network í Los Angeles í síðustu viku, en í þeirri mynd leikur Garfield einn nánasta viðskiptafélaga Marks Zuckerberg stofnanda Facebook.
Garfield segir að þó svo hann sé búinn að máta búninginn, þá sé hann ekki enn farinn að sveifla sér á milli háhýsa, eins og Spider-Man er hvað þekktastur fyrir. „Nei, ekkert svoleiðis ennþá, en ég er viss um að á einhverjum tímapunkti muni ég gera það,“ hélt hann áfram.
Spurður að því hvernig honum hugnaðist samstarfið við Emmu Stone, sem leikur Gwen Stacey kærustu Spider-Man í myndinni, sagði Garfield: „Hún er ótrúlega hæfileikarík og skemmtileg, það er gaman að vera í kringum hana. Ég er mjög ánægður að hún er með í myndinni. Hún er frábær,“ sagði Garfield um meðleikkonu sína.
Spider-Man myndin nýja, mun koma í bíó í júlí árið 2012.