Wall Street 2 á toppnum í Bandaríkjunum

Það fór eins og spáð hafði verið.Wall Street: Money Never Sleeps varð tekjuhæsta myndin í bíóhúsum í Bandaríkjunum um nýliðna helgi. Hafði hún betur en teiknimyndin Legend of the Guardians: The Owls of Ga’Hoole og The Town, en sú síðarnefnda var í sinni annarri sýningarviku.

Wall Street tók um 19 milljónir dollara í kassann á meðan teiknimyndauglurnar hans Zack Snyder höluðu tæpar 17 milljónir og Ben Affleck og bankaræningjarnir hans nöppuðu um 16 millum í viðbót. Var aðsóknin á tvær efstu myndirnar minni en spáð hafði verið, en þær fá báðar blendna dóma, þrátt fyrir að leik Michael Douglas og Shia LaBeouf sé hrósað mjög í Wall Street og eins öllu útliti í Legend of the Guardians.

Í fjórða sætinu var gamanmyndin Easy A með rúmar 10 milljónir á meðan önnur ný mynd, gamanmyndin You Again, fékk aðeins rúmar 8 milljónir í fimmta sætinu. Spennutryllarnir Devil og Resident Evil: Afterlife, teiknimyndin Alpha and Omega, og spennumyndirnar Takers og Inception fylltu svo hin fimm sætin á topp 10-listanum. Inception hefur nú setið í heilar 11 vikur á meðal 10 vinsælustu mynda og er komin í heilar 287 milljónir í heildaraðsókn í Bandaríkjunum og yfir 750 milljónir á heimsvísu.

Um næstu helgi verða tvær af best dæmdu myndum haustsins frumsýndar vestra, en The Social Network frá David Fincher og endurgerðin Let Me In munu berjast við spennutryllinn Case 39 (sem er komin á DVD á Íslandi) um hylli áhorfenda. Hver haldið þið að verði ofan á?

-Erlingur Grétar