Bandaríski leikarinn James Franco, sem leikur fjallaklifrara sem sker af sér hendina í myndinni 127 hours, var nálægt því að gefa kvikmyndaleik upp á bátinn af því að honum var alveg sama um þær myndir sem hann lék í.
Franco segir að hann hafi ekki valið réttar myndir til að leika í eftir að hann vakti athygli í Spider-Man myndunum, þar sem hann lék vin Peter Parkers, sem varð síðan andstæðingur Köngulóarmannsins.
Hann viðurkennir að hann hafi ekki verið áhugasamur um myndirnar sem hann lék í, sem leiddi til þess að hann íhugaði að hætta að leika.
„Það gerðist allt svo hratt, og kannski of hratt. Ég fékk mörg tilboð eftir Spider-Man, en ég valdi ekki alltaf nógu vel úr þeim tilboðum.
Ég lagði mig alltaf allan fram varðandi persónuna sem ég lék, en var ekkert endilega mjög áhugasamur um myndina sjálfa. Ef ég hefði ekki leikið í myndunum, hefði ég líklega aldrei farið að sjá þær í bíó.
Ég sagði við sjálfan mig, ef leikarastarfið er svona, þá get ég ekki gert þetta lengur,“ sagði James Franco.
Hann bætir við: „Rétt áður en ég lék í Pinapple Express, þá átti ég mjög erfitt. Það var ekkert gaman að leika. Þetta var í raun sársaukafullt fyrir mig, því ég hafði mjög góða leiklistarkennara til að hjálpa mér, með mikla persónuleika. Og þetta var bara í tómu tjóni, því þegar ég fór fyrir framan kvikmyndavélarnar og leikstjórinn kom með sínar hugmyndir, þá vissi ég ekki hvernig ég átti að fara að því að þjóna tveimur herrum.“
Leikarinn er loksins búinn að komast yfir þessi mál, og hefur lært það að kvikmyndir eru í raun miðill leikstjórans, sem hefur endanlegt vald.
Franco sagði við Nj.com: „Ég hef komist að því að kvikmyndir eru í raun tjáningarmiðill leikstjórans, og að vinna á móti því fyrir leikara, þá ertu að berja hausnum við steininn og fara gegn því, sem þarf til að gera góða mynd. Ég er loksins búinn að átta mig á þessu og sætta mig við það.“