Heimildarmyndin Paradís amatörsins, sem var frumsýnd í gær í Bíó Paradís, er frumlegt og hrífandi verk eftir Janus Braga leikstjóra og Tinnu Ottesen framleiðanda. Myndin hlaut dómnefndarverðlaunin á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda, og er afrakstur fimmtán ára grúsks og vinnu og er samsett úr myndböndum sem íslenskir karlmenn hafa sjálfir birt á YouTube. Útkoman er óvenjuleg og einlæg frásögn um sjálfsmynd, fjölskyldu og þá þörf okkar allra að deila lífinu með öðrum.
Að myndinni komu einnig systkinin Loji Höskuldsson og Eygló Viborg Höskuldsdóttir, sem sjá um tónlistina, og Kristján Loðmfjörð, sem annaðist klippingu.
Janus Bragi útskrifaðist úr Danska kvikmyndaskólanum árið 2009 og þetta er fyrsta heimildarmynd hans í fullri lengd.
Fjórar ólíkar raddir
Myndin fylgir fjórum íslenskum karlmönnum úr ólíkum kynslóðum sem hver á sinn hátt nota YouTube til að deila lífi sínu með heiminum.
Guðfinnur R. Kjartansson, níræður fjölskyldumaður og KR-ingur, hefur árum saman tekið upp fjölskyldulíf sitt og safnað gömlum upptökum tengdaföður síns, listamannsins Axels Helgasonar, sem skapaði hinar þekktu styttur við íslenskar bensínstöðvar. Hann smíðar einnig „brandarastyttur“ á sumarbústaðarlandinu sínu á Hólmsheiði og heldur áfram að deila myndböndum úr daglegu lífi sínu á YouTube.
Kári Friðriksson er leigubílstjóri og óperusöngvari á sjötugsaldri. Hann tekur sjálfan sig upp syngja, oft í frakka og slaufu í forstofunni heima hjá sér, og deilir jafnframt tónlist og eigin lögum á netinu. Hann syngur stundum fyrir myndavélina utandyra með gettóblasterinn sinn sem undirleik, og lög hans sveiflast frá einlægum ljóðum til barna sinna yfir í pólitískar ádeilur.
Sævar Örn, flugáhugamaður sem lýsti áður einmanaleika sínum á netinu, fann ástina á meðan tökurnar stóðu yfir og á nú tvö börn með eiginkonu sinni. Hann kýs að láta verkin tala og kaus að veita ekki viðtöl fyrir myndina.
Karl Emil Karlsson, einnig þekktur sem Kali eða HIV á netinu, er maður á fertugsaldri sem notaði YouTube til að byggja upp eigin ímynd og reyna fyrir sér sem áhrifavaldur. Hann varð þekktur fyrir hispurslausa og persónulega nálgun á efni sitt þar sem hann fjallaði opinskátt um líf sitt, sambönd, heilsu og áskoranir. Líf hans tekur óvæntar stefnur, og með tímanum verður upptökuvélin eins konar spegill inn í sál hans.
Fyndin, heiðarleg og mannleg
Paradís amatörsins er fyndin og heiðarleg heimildarmynd sem hittir beint í hjartastað og varpar ljósi á mannleikann og það hversu berskjaldandi internetið getur verið þegar það endurspeglar raunverulegt fólk án filters. Hún fangar bæði húmor og innilegar tilfinningar og heldur áhorfandanum föngnum frá upphafi til enda. Þetta er verk sem sýnir að jafnvel í látlausum upptökum geta leynst gullin augnablik sem minna okkur á hversu fallegur og dýrmætur hversdagsleikinn getur verið.
Paradís amatörsins er nú sýnd í Bíó Paradís og hægt er að nálgast miða hér
Á Íslandi, í Paradís Amatörsins, voru alltaf til menn sem tóku upp viðburði í fjölskyldum eða bæjarfélagi – áður en nokkur vissi almennilega til hvers. Í dag eru það ekki lengur viðburðir sem eru skrásettir, heldur sjálfsmyndir sem eru skapaðar. Og allt þetta efni endar á ...
Vinningsmynd dómnefndarverðlauna Skjaldborgar 2025 Ljóskastarans!





