Warner Bros hefur ráðið bandarísku leikkonuna Amber Heard í hlutverk Queen Mara, eiginkonu Aquaman, sem leikinn er af Jason Mamoa, í kvikmyndina Justice League.
Ekki er langt síðan Óskarsverðlaunaleikarinn J.K. Simmons var ráðinn í hlutverk lögregluforingjans Gordon, í sömu mynd.
Heard missti þetta út úr sér í spjalli við fréttastöðina Entertainment Tonight þar sem hún var að ræða nýjustu mynd sína The Adderall Diaries. Hún sagði í samtalinu að hún væri nú þegar búin að máta búninginn; „Já, já. Þetta er ….áhugavert [hlær]. Ég er í búningi sem er eins og hálf brynja og hálfur hreistraður. Ég veit ekki, þetta er skrýtið. En við erum að búa hann til þessa dagana, þannig að þetta er allt að gerast.“
Tökur á Justice League hefjast í apríl, en þangað til sú mynd kemur í bíó munum við sjá eiginmanninn, Aquaman, í Batman v Superman: Dawn of Justice.
Justice League er leikstýrt af Zack Snyder og með helstu hlutverk fara Ben Affleck, Henry Cavill, Gal Gadot, Jason Mamoa, J.K. Simmons, Amber Heard, Ezra Miller og Ray Fisher.
Justice League: Part 1 á að koma í bíó 17. nóvember, 2017.