Sena frumsýnir hrollvekjuna Evil Dead á föstudaginn næsta, þann 3. maí í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri, en um er að ræða endurgerð á sígildri mynd eftir Sam Raimi.
Í tilkynningu frá Senu segir að beðið hafi verið eftir þessari mynd með mikilli eftirvæntingu: „Það er óhætt að fullyrða að endurgerð þessarar sígildu hryllingsmyndar hafi verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Ekki spillir fyrir að hún er frá þeim sömu og gerðu upprunalegu klassíkina, en framleiðendur myndarinnar eru aðalmennirnir á bak við þá fyrri; leikstjórinn Sam Raimi og aðalleikarinn Bruce Campbell.“
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Söguþráðurinn ætti að vera flestum aðdáendum nágenglakvikmynda kunnur. Fimm vinir á þrítugsaldri neyðast til að hírast í afskekktum kofa úti í sveit. Þegar þeir uppgötva Bók hinna dauðu, vekja þeir óafvitandi upp illa ára sem lúra í skóginum. Árarnir taka sér bólfestu í ungmennunum, hverju á fætur öðru þar til aðeins eitt þeirra stendur eftir og heyir lokabaráttu sem skilur á milli lífs og lifandi dauða.
Myndin sló rækilega í gegn í USA fyrir stuttu síðan, en þar fór hún beint á toppinn og hlaut lof gagnrýnenda, sem margir hverjir vilja meina að hér sé á ferð besta hryllingsmynd síðari ára.
Athugið: Myndin er bönnuð innan 18 ára og ekki fyrir viðkvæma.
Leikstjóri: Fede Alvarez
Handrit: Fede Alvarez og Rodo Sayagues. Byggt á handriti Sam Raimi frá 1981.
Aðahlutverk: Jane Levy, Shilouh Fernandez o.fl.
Frumsýnd: 3. maí.
Hvar: Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.