Nýtt í bíó – The Shallows

Hákarlatryllirinn The Shallows, með Blake Lively í aðalhlutverki, verður frumsýndur á miðvikudaginn í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói, Akureyri.

blake lively

Nancy Adams er í sorgarferli eftir dauða móður sinnar. Til að takast á við sorgina einsetti Nancy sér m.a að komast á nafnlausa, afskekkta strönd sem hafði verið í miklu uppáhaldi hjá móður hennar þegar hún var á sama aldri og Nancy er á núna.

Myndin hefst á því að Nancy finnur loksins ströndina eftir mikla leit og ákveður að eyða deginum þar við brimbrettabrun eins og móðir hennar hafði gert fyrir þrjátíu árum. Sú áætlun breytist hins vegar í algjöra martröð þegar risahákarl gerir árás á hana. Illa særð á fæti kemst Nancy með herkjum upp á lítið sker í um 100 metra fjarlægð frá mannlausri ströndinni og þarf að finna leið til að lifa af því hákarlinn bíður þolinmóður eftir að flæði að og skerið fari í kaf …

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Leikstjóri: Jaume Collet-Serra
Handritshöfundur: Anthony Jaswinski
Helstu leikarar: Blake Lively, Óscar Jaenada, Angelo Jose, Sedona Legge

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– Við tökur á einu atriði í myndinni þar sem Nancy berst við hákarlinn varð það slys að Blake Lively sló höfðinu harkalega utan í bauju svo hún fékk m.a. blóðnasir. Takan fékk hins vegar að standa þannig að bæði höggið og blóðið sem áhorfendur sjá í atriðinu er raunverulegt.

– Einn aukaleikari myndarinnar hefur vakið meiri athygli en aðrir, þ.e. mávurinn Sully sem verður strandaglópur á sama skeri og Nancy eftir að vængur hans fer úr lið. Þykir hann sýna snilldarleik.

shallows plakat