Bíó paradís við Hverfisgötu í Reykjavík frumsýnir myndina Paradís: Ást í dag föstudaginn 16. ágúst. Myndin er fyrsta myndin í Paradísar þríleik leikstjórans Ulrich Seidl. Þetta er leikin mynd sem segir sögu hinnar 50 ára gömlu Teresu sem ferðast til Kenýa sem kynlífsferðamaður. Í Kenýa eru konur eins og Teresa þekktar sem “sykur- mömmur” en í myndinni eru ýmis áleitin atriði ávörpuð auk þess sem ólíkir menningarheimar eru mátaðir saman.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:
Myndin er sú fyrsta í þríleik, en myndirnar Paradise: Hope og Paradise: Faith verða einnig sýndar í Bíó Paradís á árinu.
Paradís: Ást var tilnefnd til Palme d’Or verðlaunanna á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2012 og sem besta erlenda kvikmyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago auk þess sem Margarete Tiesel var tilnefnd sem besta leikkona í aðalhlutverki á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum (European Film Awards). Þá vann myndin til þriggja af sex tilnefndum verðlaunum á Austurísku kvikmyndaverðlaununum í ár, fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki, bestu leikstjórn og bestu myndina.
Með helstu hlutverk fara Margarete Tiesel, Peter Kazungu, Inge Maux, Dunja Sowinetz, Helen Brugat, Gabriel Mwarua, Carlos Mkutano og Josphat Hamisi.
Myndin er sýnd með íslenskum texta.