Frumsýning – Snabba Cash 2

Á föstudaginn frumsýnir Græna ljósið sænsku spennumyndina Snabba Cash 2

Í myndinni höldum við áfram að fylgjast með krimmanum Johan Westlund  og félögum hans, glíma við afleiðingar glæpalífsins og þær erfiðu aðstæður sem þeir koma sér sífellt í.

Skoðið stikluna hér að neðan:

Johan er í fangelsi en hefur hug á því að endurbyggja líf sitt frá grunni og snúa aftur inn á beinu brautina. Hann leggur líf og sál í að skrifa nýtt forrit og er um það bil að selja það með hjálp farsæls vinar sínars utan fangelsins. Johan fær leyfi til að yfirgefa fangelsið og hyggst klára samninginn og koma lífi sínu á beinu brautina á ný.

En þegar vinurinn reynist ekki allur þar sem hann er séður reynist Johan erfitt að falla ekki í sama farið aftur. Hann er utan veggja fangelsins og sér enga framtíð í því að snúa aftur í klefann. Hann veit að einn af glæponunum sem hann þekkti frá fyrri tíð situr á sandi af seðlum og það er of freistandi að láta ekki slag standa og reyna komast yfir þá.

Fyrri myndin, Snabba Cash,  er að koma út í Bandaríkjunum, en í tilkynningu frá Græna ljósinu segir að það sé enginn annar en kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese sem kynni myndina í Bandaríkjunum.

Myndirnar eru byggðar á metsölubókunum eftir Jens Lapidus og í aðahlutverki er sem fyrr Joel Kinnaman úr The Killing þáttunum frábæru.

Myndin verður frumsýnd á föstudaginn eins og áður sagði, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.