Fyndið og þroskandi ævintýri

Skrýtinn heimur, Disneyteiknimyndin sem kemur í bíó á morgun föstudag, snýst dálítið um hinn réttnefnda Finn Klængs, sem er úr Klængs-fjölskyldunni sem á sér glæsta sögu sem heimsþekktir landkönnuðir, þeir bestu í öllum heiminum. Finnur hefur bara alls engan áhuga á að feta í fótspor fjölskyldu sinnar. Í stað þess að lifa ævintýralegu, ófyrirsjáanlegu, háværu og hættulegu lífi landkönnuðarins þráir hann það eitt að vera bóndi, rækta landið og búa við kyrrð og hæglæti í sínu lífi.

Pabbinn í kröppum dansi.

Áform í uppnámi

Nú virðast þessi áform Finns vera í fullkomnu uppnámi vegna þess að á vegi hans og fjölskyldu hans verður heimur sem erfitt er að átta sig á og útskýra, heimur sem hreinlega býður náttúrulögmálunum birginn. Viðbrögð Finns annars vegar og annarra í fjölskyldu hans hins vegar við átökum og hættu eru mjög ólík en nú þurfa þau öll að láta fjölskyldudeilur lönd og leið ætli þau raunverulega að komast að því hvað þessi nýi og ókunni heimur hefur upp á að bjóða.

Innblástur frá sígildum ævintýrum

Klængs-fjölskyldan gengur á vit hins óþekkta í fylgd með samansafni ólíkindatóla, stríðinni klessu, þrífættum hundi og fjölda glorhungraðra kvikinda.

Leikstjórinn, Don Hall, segir innblásturinn að Skrítnum heimi koma frá sígildum ævintýrum. Myndin sé ævintýragrínmynd um þrjár kynslóðir Klængs-fjölskyldunnar sem nái að sýna samstöðu þrátt fyrir skiptar skoðanir þegar þær þurfa í sameiningu að kanna undarlegan, stórfenglegan og gjarnan fjandsamlegan heim.

Jake Gyllenhaal fer með hlutverk Clade, eða Finns Klængs ( til vinstri á myndinni) eins og hann heitir á íslensku.

Hall segir söguþráðinn í Skrítnum heimi sækja margt í myndasögur frá því snemma á síðustu öld, sem hann hreifst mjög af sem barn. Í þeim fundu landkönnuðir gjarnan horfna heima eða fornar verur. „Þarna fékk ég innblásturinn að Skrítnum heimi,“ segir hann.

Minnir á Atlantis

Sumir segja að myndin minni á aðra Disney-mynd, Atlantis: The Lost Empire, sem einnig fjallar um könnuði sem fara um svæði sem umheimurinn hefur að mestu látið ósnortin.

Afbragðsgóð íslensk talsetning gerir Skrítinn heim að tilvalinni kvikmynd fyrir alla fjölskylduna.

Fróðleikur

-Upphaflega átti myndin að heita Finnur Klængs

-Nafn myndarinnar má rekja til tveggja myndasagna frá sjötta áratug síðustu aldar. Önnur þeirra var gefin út af Atlas Comics (forvera Marvel Comics sem er í eigu Disney)

-Sextugasta og fjórða teiknimyndin frá Disney.