Fyrsta stiklan úr Mamma Mia 2

Fyrsta stiklan úr framhaldi hinnar geysivinsælu ABBA-kvikmyndar var opinberuð rétt í þessu. Myndin ber heitið Mamma Mia! Here We Go Again og verður frumsýnd næsta sumar. Meryl Streep, Colin Firth og Amanda Seyfried snúa öll aftur í sömu hlutverkum og áður, og Ol Parker skrifar handrit og leikstýrir.

Myndin mun flakka fram og til baka í tíma til að sýna hvernig sambönd Donnu, Harry, Sam og Bill þróuðust í fortíðinni. Baby Driver-leikkonan Lily James fer með hlutverk Donnu á yngri árum, en Meryl Streep leikur persónuna í nútíðinni.

Mamma Mia! er aðsóknamesta mynd í sögu okkar Íslendinga og er með hreinum ólíkindum hversu vel henni gekk í kvikmyndahúsum sumarið 2008. Í kringum 120,000 manns skelltu sér á myndina og sumir talsvert oftar en einu sinni. Einnig voru settar af stað svokallaðar “sing along” sýningar þar sem fólk söng og dansaði með lögunum úr myndinni.

Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.