Fyrstu plakötin af persónum úr ævintýramyndinni Goðheimum eru komin út, sem og nýtt plakat myndarinnar sjálfrar og íslensk kitla. Myndin byggist á sögum norrænnar goðafræði og túlkunum danska myndasagnahöfundarins Peters Madsen á þeim í bókasyrpunni Goðheimum sem ætti að vera mörgum Íslendingum að góðu kunn.
Kvikmyndin verður frumsýnd 10. október nk. í SAM bíóunum, Smárabíói og Laugarásbíói.
Íslendingar koma að myndinni frá ýmsum hliðum, og eru í hópi framleiðenda, leikara og hönnuða búninga og gerva.
Íslendingarnir eru framleiðandinn Grímar Jónsson hjá Netop Films en fyrirtækið er meðframleiðandi myndarinnar, leikkonurnar Salóme Gunnarsdóttir sem leikur Freyju og Lára Jóhanna Jónsdóttir sem leikur Sif, búningahönnuðurinn Margrét Einarsdóttir og gervahönnuðurinn Kristín Kristjánsdóttir. Þá var Ísland líka einn af tökustöðum myndarinnar. Með hlutverk Þórs, Týs og Óðins fara dönsku leikararnir Roland Møller, Jacob Lohmann og Asbjørn Krogh Nissen.
600 milljóna stórmynd
Í umfjöllun um myndina í Morgunblaðinu í mars sl. segir Grímar að framleiðslukostnaðurinn sé um 34 milljónir danskra króna, sem er jafnvirði rúmra 600 milljóna íslenskra króna. „Þetta er stórmynd og í því ljósi eru 600 milljónir ekki mikill kostnaður,“ segir Grímar við Morgunblaðið.
Kíktu á plakötin hér fyrir neðan og kitluna þar fyrir neðan: