Noah – fyrsta plakat og kitla

Fyrsta kitlan fyrir fyrstu stikluna úr stórmynd Darren Aronofsky, Noah, sem tekin var hér á landi að hluta á síðasta ári, og er með Russell Crowe í aðalhlutverkinu, er komin út.

Einnig er komið út fyrsta plakatið sem sést hér að neðan.

Kitlan er einungis 18 sekúndna löng, en eins og flestir ættu að vita fjallar myndin um Nóa og örkina hans, sem hann fyllti af dýrum, tveimur af hverri tegund, þegar syndaflóðið skall á Jörðinni.

Í kitlunni, sem byrjar á mynd af Crowe á kafi í vatni, er ekki mikið af dýrum, tvær dúfur, en sýnt er frá byggingu arkarinnar. Lítið sést frá Íslandi, ef nokkuð.

Stiklan sjálf er svo væntanleg á morgun, en þá fáum við væntanlega að sjá meira frá tökunum hér á landi.

Helstu leikarar auk Crowe eru Jennifer Connelly, Anthony Hopkins, Emma Watson, Ray Winstone og Logan Lerman.

Noah_poster-620x918

 

Af fleiri leikurum í myndinni má nefna þau Douglas Booth, Barry Sloane, Kevin Durand, Marton Csokas, Dakota Goyo, Jóhannes Hauk Jóhannesson, Mark Margolis og Arnar Dan.

Noah kemur í bíó 28. mars 2014 í Bandaríkjunum.