Halle Berry hefur þörf

Halle Berry er með ýmislegt í gangi núna. Hún fékk óskarsverðlaunin fyrir Monster’s Ball eins og alþjóð veit, og næst sést hún í nýju Bond myndinni, sem ber heitið Die Another Day. Þar á eftir er hún bæði með í farteskinu myndirnar Nappily Ever After og endurgerðina á Foxy Brown. Hún á einnig í samningaviðræðum um að leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni Need. Er henni lýst sem sálfræðitrylli sem fjallar um kvenkyns sálgreini, sem er að hjálpa konu einni sem er í miklum sjálfsmorðshugleiðingum. Það sem gerir málið síðan verra er sú staðreynd að konan á í ástarsambandi við eiginmann sálgreinisins. Marisa Tomei á í samningaviðræðum um að leika þá konu, og myndinni verður leikstýrt af Luis Mandoki ( Angel Eyes ).