Hans og Gréta þéna mest

Hansel & Gretel: Witch Hunters, eða Nornaveiðimennirnir Hans og Gréta, voru mest sótta myndin í Bandaríkjunum eftir sýningar gærdagsins, föstudaginn 25. janúar.

Myndin, sem var frumsýnd nú fyrir helgi, er búin að þéna 6,1 milljón Bandaríkjadali í Bandaríkjunum.

Aðalhlutverkin í myndinni leika þau Jeremy Renner og Gemma Arterton, en útlit er fyrir, miðað við aðsóknina hingað til, að myndin komi til með að þéna 17 milljónir dala yfir helgina. Það er minna en menn bjuggust við, en menn voru að búast við 25 milljónum dollara í tekjur af myndinni yfir þessa frumsýningarhelgi.

Sérfræðingar í Hollywood vildu sumir kenna slæmu veðri um að fólk dreif sig síður í bíó.

Hansel and Gretel kostaði 50 milljónir dala í framleiðslu. Myndin gæti reynst vinsæl utan Bandaríkjanna, en hún var til dæmis frumsýnd í Rússlandi um síðustu helgi og þénaði þá 8,6 milljónir dala.

Mynd Jason Statham og Jennifer Lopez, Parker, og hin stjörnum prýdda Movie 43, fengu heldur dapurlegri byrjun. Parker þénaði 2,1 milljón dala í fimmta sætinu á eftir Hansel and Gretel, Mama, Silver Linings Playbook og Zero Dark Thirty. Nú er búist við því að myndin þéni 6,3 milljónir dala yfir helgina.

Movie 43 þénaði 1,8 milljónir dala og búist er við að hún skili 5 milljónum dala í tekjur yfir alla helgina.

Listinn af stórstjörnum sem leika í Movie 43, mynd sem byggist upp af stuttum grínatriðum og er hugarfóstur Peter Farrelly, er langur og inniheldur Hugh Jackman, Kate Winslet, Emma Stone, Halle Berry, Gerard Butler, Naomi Watts og marga fleiri.

Myndin var þó ódýr í framleiðslu þrátt fyrir allt, og kostaði 6 milljónir dala.