Harrelson illmenni í Planet of the Apes 3

ZOMBIELANDTrue Detective og Hunger Games leikarinn Woody Harrelson hefur verið ráðinn í hlutverk aðal mennska illmennisins í þriðju Apaplánetumyndinni, War of the Planet of the Apes.

Lítið meira er vitað um ráðninguna, en þó er vitað að persóna hans verður kölluð: ‘The Colonel’ eða Ofurstinn.

Samkvæmt The Hollywood Reporter vefsíðunni, sem segir frá þessu nú í kvöld, mun myndin fjalla um stríð á milli apa og manna, en mennirnir eiga undir högg að sækja fyrir öpum sem eru komnir með mikla vitsmuni.

Fyrsta myndin, Rise of the Planet of the Apes frá árinu 2011, sagði frá hnignun mannkyns, og í fyrra kom mynd númer tvö, Dawn of the Planet of the Apes, sem gerist tíu árum eftir atburðina í mynd númer eitt.

Leikstjórinn Matt Reeves snýr aftur í þriðju myndinni, en hann er þekktastur fyrir mynd sína Cloverfield frá árinu 2008,  og vampírumyndina Let Me In.

 

War of the Planet of the Apes kemur í bíó 14. júlí 2017.