Hefna sín og ræna dóppeningum

Tvær Hollywood stjörnur sem hafa í gegnum tíðina komist í fjölmiðla fyrir misjöfn uppátæki, misoft þó, þeir Colin Farrell og Mel Gibson, ætla að leiða saman hesta sína í nýrri spennumynd, War Pigs, eftir Tommy Wirkola.

Nick Ball og John Niven skrifuðu handritið, sem fyrst hét The Takedown. War Pigs fjallar um hóp reiðra og vonsvikinna fyrrum sjóliðshermanna, sem halda af stað í sitt síðasta verkefni – hefndarför gegn dópgenginu sem myrti einn úr hópnum. Einnig vilja þeir komast undan með milljónir af dóppeningum.

Samkvæmt fréttum í Deadline, þá mun Gibson leika The Pastor, en Ferrell verður Drex. Wirkola ætlar að kveikja á upptökuvélunum í október.

Ekki er langt þangað til Gibson mun byrja að leikstýra Seinni heimsstyrjaldarmyndinni Destroyer, en hann nær að smeygja þessu verkefni inn á undan. Farrell sést fljótlega í Widows, sem frumsýnd verður erlendis 9. nóvember, og þar á eftir í Disney myndinni Dumbo, eftir Tim Burton, en sú mynd kemur á hvíta tjaldið 29. mars á næsta ári.