Höfundar The Rise of the Planet of the Apes vongóðir um framhald

Það kemur væntanlega engum á óvart en handritshöfundar og framleiðendur Rise of the Planet of the Apes, sem fór beint á topp aðsóknarlistans í Bandaríkjunum um síðustu helgi, eru nú þegar farnir að huga að framhaldsmyndum, að því að TheWrap.com segir frá.

Handritshöfundarnir, Rick Jaffa og Amanda Silver, segjast í samtali við Thewrap.com hafa skrifað handritið að Rise of the Planet of the Apes, beinlínis með framhaldsmyndir í huga. „Við erum nokkuð viss um að það verður framhald, en samt erum við enn að bíða eftir því að þetta verði formlega ákveðið.“

Velgengni myndarinnar gefur góðar vonir um að framhald verði gert. Hún þénaði 91,5 milljón Bandaríkjadali á alheimsvísu á fyrstu fimm dögum í sýningu. Í ofanálag þá voru gagnrýnendur hrifnir og myndin er með 82% á Rotten Tomatoes. Einnig er talað um að Andy Serkis eigi skilið Óskarstilnefningu fyrir túlkun sína á apanum Sesar.

Þetta „apa“verkefni hjónanna Jaffa og Silver, hófst árið 2006, þegar þau voru að leita sér að næsta verkefni.
Jaffa, sem er með úrklippusafn í möppu heima hjá sér, stóð sig að því að skoða aftur og aftur úrklippur um simpansaapa sem eru aldir upp á heimilum þar sem hugsað er um þá eins og börn, og sagan endar alltaf illa, segir Silver. „Simpansarnir vaxa úr grasi, og verða árásargjarnari með aldrinum.“

Jaffa segist hafa vitað að það væri möguleiki á kvikmynd í þessu.

Síðan einn daginn hugsaði hann, „Planet of the Apes.“

„Ég fann leið til að endurvekja Planet of the Apes, og ég hló af taugaveiklun,“ segir Silver.“

Til að gera langa sögu stutta, þá fóru þau á fund 20th Century Fox kvikmyndafyrirtækisins og menn þar á bæ féllu strax fyrir hugmyndinni, þrátt fyrir að aðdáendur myndar Tim Burton frá 2001 og hinnar upprunalegu Planet of the Apes frá 1968, yrðu kannski ekki eins hrifnir.

Á meðan Jaffa og Silver bíða eftir að framleiðendur ákveði með framhaldið, þá eru þau að vinna að hugmyndum fyrir sjónvarp og eru einnig að vinna að tímaferðalagskvikmynd fyrir Sony.

„Við erum búin að skrifa saman í meira en 20 ár,“ segir Jaffa. „Við skrifum mjög fjölbreytt efni.“